Aðventugarðurinn opnar um helgina

Nú er heldur betur að færast líf í fallega Aðventugarðinn okkar. Á fyrsta sunnudegi í aðventu fjölmenntu fjölskyldur í hressandi aðventugöngu þar sem gengið var í gegnum gamla bæinn í Keflavík í fylgd jólasveins og Fjólu tröllastelpu og lagið tekið við Keflavíkurkirkju. Þegar hersingin kom til baka í Aðventugarðinn voru ljósin tendruð á fallega jólatré garðsins og gestum boðið upp á heitt kakó og piparkökur og var ekki annað að sjá en að gestir nytu þess svo sannarlega að vera til á þessum fyrsta aðventusunnudegi.

Um næstu helgi opnar svo Aðventugarðurinn og verður opinn frá kl. 14-17 allar helgar til jóla og á Þorláksmessu frá 18-21. Því er um að gera að líta við og taka inn anda jólanna, taka þátt í skemmtilegri dagskrá, smella sér í ratleik, ylja sér með heitu kakói og öðru góðgæti og gera góð kaup í jólakofunum. Meðal gesta í garðinum um helgina verður risastór ísbjörn, Ungleikhúsið, Marína Ósk, Brynja og Ómar, lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Kósýbandið, DansKompaní og auðvitað jólasveinarnir ómissandi. Þá er Aðventusvellið auðvitað opið og um að gera að skella sér á skauta en hægt er vinna aðgang fyrir tvo á svellið með því að taka skemmtilegar myndir í Aðventugarðinum og „tagga“ Reykjanesbæ í story á Instagram.