Rauði hringurinn sýnir hvar aldingarðurinn er staðsettur.
Á sumardaginn fyrsta mun Reykjanesbær afhenda Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands Aldingarð æskunnar við skrúðgarðinn í Keflavík. Þar vilja félagsmenn í Suðurnesjadeild kynna yngstu kynslóðinni fyrir gildum ræktunar í leik og starfi. Afhendingin fer fram kl. 14:00 og eru bæjarbúar velkomnir.
Reykjanesbær hefur gert fallegan reit á afmörkuðu svæði við skrúðgarð, þar sem áður var íbúðarhúsnæði. Í mars sl. sendi formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélagsins bréf þar sem deildin óskaði eftir að reiturinn yrði afhentur félaginu og þar með æskunni til afnota.
Garðyrkjufélagið er áhugamannahópur um ræktun garðplantna og yndisgróðurs almennt, eins og segir í bréfinu. Með því að kynna yngstu kynslóðinni fyrir gildi ræktunar fari saman virðing fyrir náttúrunni og mannræktarhugsjón. Áhugi er á ræktun berjarunna og ávaxtatráa í reitnum ásamt öðru ræktunarstarfi í þágu æskunnar í samvinnu við leikskóla, foreldra barna, sveitarfélagsins og annarra velunnara. „Ef vel tækist til væri hér sáð fræi sem gæti gefið af sér ríkulegan ávöxt í margræðri merkingu,“ segir í bréfi formanns.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti erindi formanns á fundi sínum þann 5. apríl sl. og bæjarstjórn 16. apríl.