Alþjóðleg vottun færir aukin tækifæri

Alþjóðleg vottun sem Reykjanes jarðvangur (Reykjanes Geopark) fékk á dögunum er flott tækifæri fyrir sveitarfélögin, íbúana og fyrirtækin að vekja athygli á því að þau búi og starfi innan jarðvangs. Þetta segir Eggert Sólberg Jónsson verkefnisstjóri jarðvangsins. Nú sé það í okkar höndum að nýta þetta tækifæri. 

Auk alþjóðlegrar vottunar fékk Reykjanes jarðvangur aðild að samtökunum European Geopark Network, samtökum svæða sem þykja jarðfræðilega merkileg og njóta stuðnings UNESCO, Mennta-, menninga og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Undirbúningur að vottun hófst árið 2012 með ráðningu Eggerts Sólberg Jónssonar  í starf verkefnastjóra jarðvangsins. Jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegur eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Innan Reykjanes jarðvangs þykja Atlantshafshryggurinn, flekaskilin og afleiðingar þeirra vera einstök.

„Við höldum áfram að vinna að okkar verkefnum sem eru helst að vekja athygli og áhuga á jörðinni, m.a. með fræðslu og uppbyggingu innviða á áhugaverðum stöðum. Við munum líka njóta ávinnings af samstarfinu innan Global Geoparks Network m.a. með auknu markaðsstarfi og aðgengi að alþjóðlegu neti sérfræðinga. Nú reynir samt fyrst og fremst á ferðaþjónustuna, sveitarfélögin og aðra hagsmunaðila að nýta sér Reykjanes Geopark í starfsemi sinni, t.d. markaðssetningu,“ segir Eggert Sólberg Jónsson verkefnastjóri.

Jarðvangurinn hefur opnað nýjan vef á slóðinni http://www.reykjanesgeopark.is.