Ályktun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vegna rafmagnsleysis þann 16. janúar 2023
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess alvarlega ástands sem myndaðist á öllum Suðurnesjum í kjölfar þess að Suðurnesjalína sló út mánudaginn 16. janúar. Rafmagn fór strax af öllu svæðinu í rúmar 2 klukkustundir, þar sem búa um 30 þúsund manns. Í kjölfarið fór heitt vatn, bæði neysluvatn og hitaveita af. Stuttu síðar fór einnig síma- og netsamband af öllu svæðinu. Það er með öllu óviðunandi og grafalvarlegt að slíkt skuli geta gerst árið 2023.
Fulltrúi Landsnets upplýsti í fréttum að ef Suðurnesjalína 2 hefði verið komin í gagnið hefði mátt koma í veg fyrir slíkt hrun innviða. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á Sveitarfélagið Voga og Landsnet að leysa strax úr ágreiningi um lagnaleiðir Suðurnesjalínu 2 og leiða það mál til lykta sem allra fyrst til að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum. Bæjarstjórn skorar einnig á fyrirtæki sem veita síma- og netþjónustu til að tryggja lengri uppitíma á varaafli en raunin var í gær.
Reykjanesbær 17. janúar 2023