Á morgun föstudag er gert ráð fyrir asahláku og hvassviðri í kjölfar hlýnandi veðurs eins og komið hefur fram í fréttum frá Veðurstofu Íslands. Eftir langan frostakafla stefnir í að það verðir allt að 8 stiga hiti á Reykjanesi með rigningu.
Mikilvægt er að bæjarbúar séu meðvitaðir um þá hættu sem skapast getur við aðstæður sem þessar og bregðist við henni með því að moka frá niðurföllum og fylgist með vatni í kringum sín heimili.
Það er mikilvægt að hreinsa snjóhengjur og grýlukerti af húsþökum í dag. Ástæðan er sú að við þessar erfiðu veðuraðstæður geti fólki stafað hætta af þegar snjór og ís fellur niður. Einnig er mikilvægt að hreinsa vel frá niðurföllum til að minnka líkur á að vatn flæði inn í hús.
Talsvert eignatjón getur orðið af slíkum vatnstjónum eins og þekkt er, sem í mörgum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir. Af gefnu tilefni viljum við einnig benda á að ef fólk beitir hálkuvörnum við húsnæði, er ráðlagt að nota sand en ekki salt.
Í neyðartilvikum eru íbúar hvattir til þess að hringja í 112 sem metur aðstæður og kallar til viðbragðsaðila ef hætta skapast fyrir fólk og eignir.