Ásta Katrín Helgadóttir handhafi Hvataverðlauna ÍF 2019 á milli Bergrúnar Óskar Aðalsteinsdóttur og Más Gunnarssonar, sem voru kjörin íþróttamenn ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Ljósmynd: ÍF
Hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) féllu árið 2019 í skaut Ástu Katrínar Helgadóttur íþróttakennara. Ásta Katrín er fagstjóri í hreyfingu í leikskólanum Skógarási. Hvatabikarinn hlaut hún fyrir sérverkefni sem tengist leikskólastarfi og hreyfiþjálfun barna.
Árið 2015 hóf ÍF innleiðingu verkefnisins YAP eða Young Athlete Project sem er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics samtakanna. YAP hefur að markmiði að stuðla að snemmtækri íhlutun á sviði hreyfifærni, sérstaklega fyrir börn með sérþarfir eða frávik. Ísland hefur farið þá leið að leita samstarfs við leikskóla. Heilsuleikskólinn Skógarás á Ásbrú hefur verið leiðandi samstarfsaðili frá upphafi.
Að sögn Þóru Sigrúnar Hjaltadóttur leikskólastjóra Skógaráss hefur Ásta Katrín náð að tengja hugmyndafræði YAP við dagleg verkefni og nám í samstarfi við leikskólakennara. „Upphafið af þessu verkefni hjá okkur má rekja til ársins 2015 þegar við kynntumst aðferðinni YAP í gegnum þróunarverkefni í samstarfi við Special Olympics í Rúmeníu og á Íslandi, ásamt þroskaþjálfanemum í Háskólanum í Reykjavík. Verkefnið var styrkt af EFTA (Ísland, Noregur og Liechtenstein) og stýrt af SO Rúmeníu. Síðan þá höfum við verið að þróa þetta hjá okkur og verið leiðandi í samstarfi við SO Ísland við að kynna verkefnið og árangur þess.“
Öll börn hafa notið góðs af
Leikskólinn sótti um Erasmus+ styrk og fékk árið 2016. Í framhaldi varð Skógarás stýriskóli þessa verkefnis með Ástu Katrínar sem stjórnanda. „Verkefnið hét „What´s your moove?“ og var unnið í samstarfi við leikskólana Læringsverkstedet Skogmo í Jessheim í Noregi og Pallipõnn Eistlandi. Báðir störfuðu þeir líka með hreyfiþroska barna,“ segir Þóra Sigrún.
Hún segir að þó verkefnið YAP sé fyrst og fremst hugsað fyrir einstaklinga sem eru með einhverskonar frávik, sé það á Skógarási notað fyrir alla nemendur skólans með góðum árangri. „Í upphafi æfingaáætlunarinnar taka börnin próf og aftur í lok hennar til að sjá árangur og einnig ef þarf að gera breytingar hjá barni sem ekki hefur náð að tileinka sér ákveðin viðmið. Við tökum okkur lengri tíma í að fara í gegnum hvern þátt æfingaáætlunarinnar heldur en hún segir til um eða 4 vikur með hvern þátt. Það gerum við til að þjálfa enn frekar þá þætti hreyfiþjálfunarinnar sem verið er að fara í gegnum í það skiptið.“
Vel að þessu komin
Í umsögn með Hvataverðlunum 2019 segir: „Ásta Katrín hefur aðstoðað framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi við kynningarstarf á landsvísu, skipulagt verklega sýnikennslu á YAP kynningardögum og kynnt árangursríka aðferðafræði innleiðingar í heilsuleikskólanum Skógarási. Þar hafa öll börnin notið góðs af en sérstakur markhópur hefur verið börn með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, hreyfivirkni eða ADHD og einnig nemendur sem eru t.d. óöruggir eða tvítyngdir.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsuleikskólanum Skógarási hafa sýnt framfarir í hreyfifærni en einnig jákvæð áhrif YAP verkefnisins á félagsleg samskipti, vellíðan, sjálfsöryggi og gleði, sjálfsstjórn og tjáningu. Rannsókn á viðhorfi foreldra leikskólabarna í Skógarási til YAP verkefnisins, sýndi fram á að foreldrar töldu sig meðvitaðri um að auka og fylgjast með hreyfiþroska barnsins og þeir töldu að YAP verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á hreyfiþroska, samskipti, félagsfærni og hegðun. Rannsókn sýndi einnig að kennarar leikskólans töldu YAP verkefnið hafa haft mjög jákvæð áhrif á hreyfiþroska og félagsfærni og einnig jákvæð áhrif á samskipti og hegðun nemenda. Markmið er að YAP verkefnið styrki börnin, geri þau hæfari til að stíga fyrstu skrefin í íþróttum og stuðli þannig að jákvæðri upplifun og þátttöku allra barna í íþróttastarfi. Þetta verkefni er því talið mjög mikilvægt til framtíðar fyrir starfsemi ÍF.
Íþróttasamband fatlaðra þakkar Ástu Katrínu sitt mikilvæga framlag.
Hún er sannarlega vel að þessu komin.“