Ástrós og Kristófer íþróttafólk Reykjanesbæjar 2015

Kristófer og Ástrós.
Kristófer og Ástrós.


Ástrós Brynjarsdóttir taekwondoiðkandi hjá Keflavík var kjörin íþróttakona Reykjanesbæjar 2015 og Kristófer Sigurðsson sundiðkandi hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar íþróttakarl Reykjanesbæjar 2015. Kjörið fór fram á gamlársdag í íþróttahúsinu í Njarðvík.

Sú nýbreytni var samþykkt á síðasta þingi ÍRB að velja íþróttakonu og íþróttakarl í stað íþróttamanna áður. Þá voru karl og kona útnefnd í hverri íþróttagrein sem iðkuð er í Reykjanesbæ og allir sem höfðu hampað Íslandsmeistaratitli á árinu voru heiðraðir. 

Ummæli um íþróttakonu og íþróttakarl Reykjanesbæjar: 

Ástrós hlaut fimm Íslandsmeistaratitla á árinu, hún vann til tíu gullverðlauna, tveggja silfur verðlauna og þriggja bronsverðlauna. Ástrós er ávallt fyrsta val landsliðsþjálfara á öll mót í kvennaflokkum. Ástrós hefur sýnt það ítrekað að hún er með betri íþróttamönnum í heimi í þessari erfiðu og fjölmennu íþróttagrein, en taekwondo er vinsælasta bardagaíþrótt heims. Ástrós hefur verið valin taekwondo kona Íslands síðustu ár og heldur áfram að bæta stórum afrekum á ferilskrána á árinu 2015. Ástrós varð fyrsta íslenska konan í ár til að verða Norðurlandameistari í tækni og eini Íslendingurinn sem hefur orðið Norðurlandameistari í bæði bardaga og tækni. Ástrós keppti á Norðurlandamótinu sem haldið var í Noregi og átti þar frábæra frammistöðu. Hún sigraði sinn flokk í bardaga og var það hennar þriðji Norðurlandatitill í bardaga. Þá sigraði hún einnig sinn flokk í tækni sem var mjög stór og sterkur flokkur. Hún varð þá í 2. sæti í paratækni ásamt Svani Þór Mikaelssyni, en það eru fyrstu verðlaun Íslendinga í paratækni á Norðurlandamóti í stórum og sterkum flokki.

Kristófer hefur verið einn af fremstu sundmönnum Keflavíkur til margra ára. Hann vann til sjö íslandsmeistaratitla á árinu og er með 734 FINA stig. Í apríl var Íslandsmeistaramóti í 50m laug haldið í Reykjavík og þar varð Kristófer Íslandsmeistari í 200 og 400 m skriðsundi. Þar synti hann 400m skriðsund á tímanum 4.03,95 og hlaut 734 FINA stig. Á AMÍ sem haldið var á Akureyri í júní varð Kristófer Íslandsmeistari í fimm greinum: 100, 200 og 400m skriðsundi, 200m bringusundi, 200m baksundi og 200m fjórsundi. Einnig var hann í 2 boðsundsveitum 10x50m skriðsund og 4x100m skriðsund. Kristófer var í liði Íslands á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru hér á landi í júní. Þar var hann meðal annars í boðsundsveit sem náði 2.sæti.

Akstursíþróttamaður Reykjanesbæjar 2015 – Ragnar Bjarni Gröndal

Taekwondokarl Reykjanesbæjar 2015 –Ágúst Kristinn Eðvarðsson

Júdómaður Reykjanesbæjar 2015 – Ægir Már Baldvinsson

Blakkarl Reykjanesbæjar 2015 – Hjörtur Harðarson

Blakkona Reykjanesbæjar 2015 – Sæunn Svana Ríkharðsdóttir

Fimleikakona Reykjanesbæjar 2015 – Laufey Ingadóttir

Fimleikakarl Reykjanesbæjar 2015 – Atli Viktor Björnsson

Þríþrautarkarl Reykjanesbæjar 2015 - Rafnkell Jónsson

Þríþrautarkona Reykjanesbæjar 2015 - Guðbjörg Jónsdóttir

Íþróttakarl fatlaðra í Reykjanesbæ 2015 – Már Gunnarsson

Íþróttakona fatlaðra í Reykjanesbæ 2015 – Sigríður K. Ásgeirsdóttir Boyd

Handboltamaður Reykjanesbæjar – Jóel Freyr Magnússon

Skotkarl Reykjanesbæjar 2015 - Theodór Kjartansson

Skotkona Reykjanesbæjar 2015 – Sigríður Eydís Gísladóttir

Hnefaleikamaður Reykjanesbæjar 2015 – Arnar Smári Þorsteinsson

Knattspyrnukona Reykjanesbæjar 2015 – Kristrún Ýr Hólm Keflavík

Knattspyrnukarl Reykjanesbæjar 2015- Einar Orri Einarsson Keflavík

Sundkona Reykjanesbæjar 2015 – Sunneva Dögg Friðriksdóttir

Körfuknattleikskarl Reykjanesbæjar 2015 - Logi Gunnarsson

Körfuknattleikskona Reykjanesbæjar 2015 - Sandra Lind Þrastardóttir

Lyftingakarl Reykjanesbæjar 2015 - Hörður Birkisson

Lyftingakona Reykjanesbæjar 2015 – Inga María Henningsdóttir

Hestaíþróttamaður Reykjanesbæjar 2015 - Jóhanna Margrét Snorradóttir

Kylfingur Reykjanesbæjar 2015 – Zúzanna Korpak

Ljósmynd með frétt: Víkurfréttir