Ástrós Brynjarsdóttir taekwondoiðkandi hjá Keflavík var kjörin íþróttakona Reykjanesbæjar 2015 og Kristófer Sigurðsson sundiðkandi hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar íþróttakarl Reykjanesbæjar 2015. Kjörið fór fram á gamlársdag í íþróttahúsinu í Njarðvík.
Sú nýbreytni var samþykkt á síðasta þingi ÍRB að velja íþróttakonu og íþróttakarl í stað íþróttamanna áður. Þá voru karl og kona útnefnd í hverri íþróttagrein sem iðkuð er í Reykjanesbæ og allir sem höfðu hampað Íslandsmeistaratitli á árinu voru heiðraðir.
Ummæli um íþróttakonu og íþróttakarl Reykjanesbæjar:
Ástrós hlaut fimm Íslandsmeistaratitla á árinu, hún vann til tíu gullverðlauna, tveggja silfur verðlauna og þriggja bronsverðlauna. Ástrós er ávallt fyrsta val landsliðsþjálfara á öll mót í kvennaflokkum. Ástrós hefur sýnt það ítrekað að hún er með betri íþróttamönnum í heimi í þessari erfiðu og fjölmennu íþróttagrein, en taekwondo er vinsælasta bardagaíþrótt heims. Ástrós hefur verið valin taekwondo kona Íslands síðustu ár og heldur áfram að bæta stórum afrekum á ferilskrána á árinu 2015. Ástrós varð fyrsta íslenska konan í ár til að verða Norðurlandameistari í tækni og eini Íslendingurinn sem hefur orðið Norðurlandameistari í bæði bardaga og tækni. Ástrós keppti á Norðurlandamótinu sem haldið var í Noregi og átti þar frábæra frammistöðu. Hún sigraði sinn flokk í bardaga og var það hennar þriðji Norðurlandatitill í bardaga. Þá sigraði hún einnig sinn flokk í tækni sem var mjög stór og sterkur flokkur. Hún varð þá í 2. sæti í paratækni ásamt Svani Þór Mikaelssyni, en það eru fyrstu verðlaun Íslendinga í paratækni á Norðurlandamóti í stórum og sterkum flokki.
Kristófer hefur verið einn af fremstu sundmönnum Keflavíkur til margra ára. Hann vann til sjö íslandsmeistaratitla á árinu og er með 734 FINA stig. Í apríl var Íslandsmeistaramóti í 50m laug haldið í Reykjavík og þar varð Kristófer Íslandsmeistari í 200 og 400 m skriðsundi. Þar synti hann 400m skriðsund á tímanum 4.03,95 og hlaut 734 FINA stig. Á AMÍ sem haldið var á Akureyri í júní varð Kristófer Íslandsmeistari í fimm greinum: 100, 200 og 400m skriðsundi, 200m bringusundi, 200m baksundi og 200m fjórsundi. Einnig var hann í 2 boðsundsveitum 10x50m skriðsund og 4x100m skriðsund. Kristófer var í liði Íslands á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru hér á landi í júní. Þar var hann meðal annars í boðsundsveit sem náði 2.sæti.
Akstursíþróttamaður Reykjanesbæjar 2015 – Ragnar Bjarni Gröndal
Taekwondokarl Reykjanesbæjar 2015 –Ágúst Kristinn Eðvarðsson
Júdómaður Reykjanesbæjar 2015 – Ægir Már Baldvinsson
Blakkarl Reykjanesbæjar 2015 – Hjörtur Harðarson
Blakkona Reykjanesbæjar 2015 – Sæunn Svana Ríkharðsdóttir
Fimleikakona Reykjanesbæjar 2015 – Laufey Ingadóttir
Fimleikakarl Reykjanesbæjar 2015 – Atli Viktor Björnsson
Þríþrautarkarl Reykjanesbæjar 2015 - Rafnkell Jónsson
Þríþrautarkona Reykjanesbæjar 2015 - Guðbjörg Jónsdóttir
Íþróttakarl fatlaðra í Reykjanesbæ 2015 – Már Gunnarsson
Íþróttakona fatlaðra í Reykjanesbæ 2015 – Sigríður K. Ásgeirsdóttir Boyd
Handboltamaður Reykjanesbæjar – Jóel Freyr Magnússon
Skotkarl Reykjanesbæjar 2015 - Theodór Kjartansson
Skotkona Reykjanesbæjar 2015 – Sigríður Eydís Gísladóttir
Hnefaleikamaður Reykjanesbæjar 2015 – Arnar Smári Þorsteinsson
Knattspyrnukona Reykjanesbæjar 2015 – Kristrún Ýr Hólm Keflavík
Knattspyrnukarl Reykjanesbæjar 2015- Einar Orri Einarsson Keflavík
Sundkona Reykjanesbæjar 2015 – Sunneva Dögg Friðriksdóttir
Körfuknattleikskarl Reykjanesbæjar 2015 - Logi Gunnarsson
Körfuknattleikskona Reykjanesbæjar 2015 - Sandra Lind Þrastardóttir
Lyftingakarl Reykjanesbæjar 2015 - Hörður Birkisson
Lyftingakona Reykjanesbæjar 2015 – Inga María Henningsdóttir
Hestaíþróttamaður Reykjanesbæjar 2015 - Jóhanna Margrét Snorradóttir
Kylfingur Reykjanesbæjar 2015 – Zúzanna Korpak
Ljósmynd með frétt: Víkurfréttir