„Bjartsýnn á að endanlegt, víðtækt samkomulag liggi fyrir í apríl“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kæru bæjarbúar.
Eins og flestum ykkar er kunnugt um hefur bæjarstjórn Reykjanesbæjar samhent unnið að því verkefni að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins út frá markmiðum sóknaráætlunar, sem kynnt var bæjarbúum í október 2014. Í þeirri vegferð hefur bæjarstjórnin þurft að taka ýmsar erfiðar ákvarðanir um hagræðingu og skattahækkanir í þeim tilgangi að auka framlegð bæjarins. Okkur hefur miðað vel í þeim efnum á árinu 2015 og gerum við ráð fyrir enn frekari bætingu á rekstrarafkomu bæjarsjóðs á árinu 2016.
Annað lykilatriði í sóknaráætlun okkar snýr að endurskipulagningu skulda, sem er að okkar mati óumdeilanlega nauðsynleg aðgerð til að ná lögbundnu skuldaviðmiði sveitarfélaga innan þeirra tímamarka sem okkur hafs verið sett. Undanfarna mánuði hefur verið unnið markvisst að þessum þætti og viðræður staðið yfir við stærstu kröfuhafa sveitarfélagsins um nauðsynlega eftirgjöf á skuldum. Eftir að samkomulag náðist í febrúar sl. við stærstu kröfuhafa bæjarsjóðs færðumst við nær markmiðum okkar. Þrátt fyrir að um ákveðin tímamót hafi verið að ræða þá er málinu ekki lokið. Í kjölfar samkomulagsins hefur verið unnið að því að ræða nánar við aðra lánveitendur bæjarins um þátttöku þeirra í samkomulaginu þannig að endurskipulagning skulda nái fram að ganga. Þeim viðræðum miðar áfram.
Vonir okkar standa til að hægt verði að ljúka málinu farsællega í byrjun næsta mánaðar og er ég bjartsýnn á að endanlegt, víðtækt samkomulag liggi fyrir í apríl. Það er hins vegar undir kröfuhöfum Reykjanesbæjar komið hvort endanleg niðurstaða fáist í málið. Takist samkomulag milli allra hlutaðeigandi aðila getum við bæjarbúar horft björtum augum til framtíðarreksturs bæjarfélagsins og þeirra tækifæra sem hér eru.
Þrátt fyrir eftirgjöf skulda er verkefninu um bætta fjárhagsstöðu þó ekki lokið því áfram þarf að gæta aðhalds við rekstur bæjarins. Verkefnið verður þó orðið yfirstíganlegt en ekki óvinnandi vegur undir sligandi skuldabagga. Markmiðið með samkomulaginu við kröfuhafa er einmitt að gera okkur kleift að ná skuldum sveitarfélagsins niður í viðunandi horf og að sjá endamarkið í þeim efnum í fyrirsjáanlegri framtíð.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri