Bakhlið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fallegum vetrarmorgni.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sendi á síðasta bæjarstjórnarfundi ársins frá sér bókun varðandi málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Í bókuninni kemur fram að núverandi fjárveitingar dugi ekki til rekstrar og nauðsynlegrar endurnýjunar á tækjum og húsnæði stofnunarinnar. „Bæjarstjórn fordæmir skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar hvað varðar málefni HSS og gerir kröfu til að þetta verði leiðrétt“, eins og fram kemur í bókun. Bæjarstjórn hvetur þingmenn kjördæmisins sem og þingheim allan til að styðja stjórnina í þessari baráttu. Fundurinn fór fram 18. desember sl.
Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi:
„Sú staða er nú uppi á HSS að núverandi fjárveitingar duga ekki til rekstrar og nauðsynlegrar endurnýjunar á tækjum og húsnæði stofnunarinnar.
Til þess að jafnvægi verði náð þyrftu fjárveitingar til stofnunarinnar að aukast um 281 milljón króna á árinu 2019 umfram það sem áætlað er í fjárlagafrumvarpi 2019.
Auk þess má gera ráð fyrir að eigið fé verði neikvætt um 58 milljónir króna í árslok.
Ljóst er að núverandi húsnæði HSS og skipulag þess hefur sprengt allt utan af sér, uppfyllir ekki kröfur og hamlar möguleika HSS til að mæta mikilli þörf fyrir aukna þjónustu. Þjónustuþörf hefur aukist verulega á undanförnum árum í samræmi við fjölgun íbúa auk annarra veigamikilla þátta, svo sem fordæmalausrar fjölgunar ferðamanna og stóraukinnar starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Þessi fjölgun íbúa er einstök fyrir heilbrigðisumdæmin á landinu og langt yfir öðrum svæðum.
Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2019 fær HSS 2.850,8 milljónir króna á árinu 2019. Áætluð raunhækkun fjárveitinga frá 2016 til fjárlagafrumvarps 2019 er liðlega 7%. Til samanburðar þá fjölgar íbúum frá 2016 til og með 2018 um 22% og á árinu 2019 stefnir í sambærilega fjölgun og verið hefur.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fordæmir skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar hvað varðar málefni HSS og gerir kröfu til að þetta verði leiðrétt.
Þrátt fyrir mikla samstöðu sveitarstjórna á Suðurnesjum í málefnum HSS virðist það engu skipta þegar kemur að ákvörðunartöku. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill því hvetja þingmenn kjördæmisins sem og þingheim allan til að styðja okkur í þessari baráttu“.