Ungmennaráð í samstarfi við Fjörheima félagsmiðstöð héldu barna- og ungmennaþing 19. október s.l í Hljómahöll en þetta var í annað skiptið sem slíkt þing er haldið í sveitarfélaginu.
Alls sóttu um 170 börn og ungmenni úr grunnskólum Reykjanesbæjar þingið en markmiðið var að veita þeim rödd innan stjórnsýslunnar. Málaflokkarnir sem teknir voru fyrir á þinginu voru eftirfarandi: Menntun, tómstundir og frítíminn, íþróttir, andleg líðan og lýðheilsa, skipulagsmál og samgöngur og menning.
Þátttakendum var skipt niður á sextán borð þar sem líflegar samræður mynduðust og ljóst er að ungmenni sveitarfélagsins eru uppfull af hugmyndum og hafa áhuga á því að koma að borðinu og segja sína skoðun á þeim málum snerta þau.