BAUN hefst á fimmtudag!

BAUN, barna- og ungmennahátíð verður haldin 27. apríl – 7. maí. Á BAUN eru börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra sett í forgang og boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Fylgist með á baun.is

Á fimmtudag hefst BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ en BAUN er skammstöfun fyrir barn annars vegar og ungmenni hins vegar. BAUN hefur einnig táknræna merkingu þar sem baunir eru fræ sem með réttri næringu og góðu atlæti springa út og breiða úr sér. Þannig er barna- og ungmennahátíð frjósamur jarðvegur fyrir börnin okkar og gefur þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra.

Allar upplýsingar um dagskrá BAUnar og einstaka viðburði má finna á vefslóðinni baun.is en einnig má fylgjast með gangi mála á facebooksíðu BAUNar, BAUN, barna og ungmennahátíð.

BAUNabréfið

Nú í vikunni verður öllum leikskólabörnum og grunnskólabörnum upp í 7.bekk afhent glænýtt BAUNabréf. Tilgangur þess er að hvetja börn og fjölskyldur til að fara á kreik og taka þátt í ýmsum skemmtilegum verkefnum og svara spurningum eða safna stimplum í bréfið sitt. Þátttökuseðli BAUNabréfsins er svo hægt að skila inn að hátíð lokinni og þá eiga börnin möguleika á að vera dregin úr potti og vinna til veglegra verðlauna.

Dagskrá

Fjölmargt spennandi er á dagskrá BAUNar í ár. Má þar nefna Listahátíð barna og ungmenna í Duus safnahúsum þar sem gefur að líta listsköpun barna frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Hæfileikahátíð grunnskólanna fer fram í Stapa þar sem úrvalsatriði frá árshátíðum grunnskólanna eru sýnd og verður þeim líka streymt samtímis í alla skóla bæjarins. Í ár eru tveir spennandi viðburðir í Njarðvíkurskógum þar sem boðið verður upp á gróðursetningu á óskaBAUN sem og Sirkusskóg þar sem gengið er í gegnum skóginn og tekið þátt í fjölbreyttum sirkuslistum. Skessuskokkið verður á sínum stað sem og spennandi listasmiðjur m.a. grímusmiðja, leirsmiðja og skuggaleikhússmiðja í Svarta Pakkhúsinu. Einnig verður pop-up leikvöllur í Duus Safnahúsum, origami, Svarthöfði og bíó í Bókasafninu. Arnór Sindri kemur fram í Rokksafninu og þá standa Fjörheimar fyrir flottri dagskrá og má þar nefna sundlaugarpartý, graffiti, listasmiðju, fatamarkað og fjölskyldufjör fyrir alla fjölskylduna og fleira og fleira.

Allir með!

Við hvetjum fjölskyldur til að taka virkan þátt í BAUNinni 2023, halda af stað í ævintýraleiðangur með BAUNabréfið að vopni og eiga saman frábærar fjölskyldustundir. Til mikils er að vinna að fylla út í BAUNabréfið en heppnir þátttakendur fá í verðlaun trampólín og aukavinninga.

Frekari upplýsingar um tilboð og sérstaka viðburði verða birtar á vefsíðunni baun.is en þar má einnig sjá alla dagskrána.

Góða skemmtun á BAUN.