BAUNin hefst á fimmtudaginn

Barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ 28. apríl - 8.maí

Það má með sanni segja að BAUNin hafi slegið rækilega í gegn í fyrra þegar bærinn fylltist af krökkum og foreldrum þeirra sem flökkuðu á milli staða með BAUNabréf í hönd og tóku þátt í alls konar verkefnum og söfnuðu um leið stimplum í BAUNabréfið sitt.

Fylgist með á Visit Reykjanesbær

Á fimmtudag hefst BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ árið 2022 en BAUN er skammstöfun fyrir barn annars vegar og ungmenni hins vegar. BAUN hefur einnig táknræna merkingu þar sem baunir eru fræ sem með réttri næringu og góðu atlæti springa út og breiða úr sér. Þannig er barna- og ungmennahátíð frjósamur jarðvegur fyrir börnin okkar og gefur þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra.

Allar upplýsingar um dagskrá BAUNar og einstaka viðburði verður að finna á nýrri vefsíðu Visit Reykjanesbær undir Viðburðir og einnig má fylgjast með gangi mála á facebooksíðunni Baun, barna- og ungmennahátíð.

BAUNabréfið

Nú í vikunni verður öllum leikskólabörnum og grunnskólabörnum upp í 7.bekk afhent glænýtt BAUNabréf. Tilgangur bréfsins er að hvetja börn og fjölskyldur til að fara á kreik og taka þátt í ýmsum skemmtilegum verkefnum og svara spurningum eða safna stimplum í bréfið sitt. Þegar ákveðinn fjöldi verkefna hefur verið leystur er hægt að skila inn lausnasíðu úr BAUNabréfinu og þá eiga börnin möguleika á að vera dregin úr potti og vinna til veglegra verðlauna.

Dagskrá

Fjölmargt spennandi er á dagskrá BAUNar í ár. Má þar nefna Listahátíð barna í Duus Safnahúsum þar sem gefur að líta listsköpun barna frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Hæfileikahátíð grunnskólanna fer fram í Stapa þar sem úrvalsatriði frá árshátíðum grunnskólanna eru sýnd og í ár verður þeim líka streymt samtímis í alla skóla bæjarins. Sérstakt Skessuskokk fer fram, nokkrar spennandi listasmiðjur verða opnar m.a. BAUNasmiðja í Duus Safnahúsum þar sem börn geta búið til sína eigin baun, BMX-brós verða með námskeið og sýningu við fjallahjólabraut á Ásbrú, Slökkviliðssýningin í Ramma verður opin, sundlaugarpartý verður haldið í Sundmiðstöðinni, hægt verður að líta inn í Stekkjarkot, fara í þrautabraut í Íþróttaakademíunni, næla sér í lummur hjá Skessunni og Fjólu tröllastelpu, kíkja á Múmínálfana á Bókasafninu, leita að baunum í Rokksafninu og þannig mætti áfram telja. Þá standa Fjörheimar fyrir flottri dagskrá fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Þátttaka fyrirtækja

Nokkur flott fyrirtæki hér í bæ leggja sitt af mörkum til BAUNarinnar en markmiðið er auðvitað að allir sem koma að börnum og fjölskyldum á einhvern máta í Reykjanesbæ geti sameinast undir merkjum BAUNar og tekið þátt í að gera gott samfélag enn betra. Þannig má t.d. nefna að LIBARY Bistro/bar stendur nú fyrir skemmtilegri sögusmiðju alla hátíðina ásamt sérstakri myndskreytingasmiðju og ýmis önnur fyrirtæki bjóða upp á sérstök tilboð/viðburði tengda hátíðinni svo sem eins og barnabröns á KEF restaurant, tilboð í Skóbúðinni, Lyfju og Apóteki Reykjaness á ákveðnum vörum tengdum börnum. Það er von aðstandenda hátíðarinnar að það fjölgi jafnt og þétt í þessum hópi.

Allir með!

Við hvetjum fjölskyldur til að taka virkan þátt í BAUNinni 2022, halda af stað í ævintýraleiðangur með BAUNabréfið að vopni og eiga saman frábærar fjölskyldustundir. Til mikils er að vinna að fylla út BAUNabréfið en heppnir þátttakendur fá í verðlaun trampolín auk bíómiða með poppi og drykk.

Frekari upplýsingar um tilboð og sérstaka viðburði verða birtar á vefsíðunni Visit Reykjanesbær undir Viðburðir en þar má einnig sjá alla dagskránna.

Gleðilega BAUN og góða skemmtun.