Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 10. bekk haustið 2012, eru nú komnar. Ágætar framfarir má sjá milli ára hjá nemendum grunnskólanna í Reykjanesbæ, sérstaklega í stærðfræði og ensku. Framfarir eru einnig í íslensku, en ekki eins miklar.
Reykjanesbær er nú yfir meðaltali Suðurkjördæmis í öllum samræmdum greinum og hefur meðaltal Reykjanesbæjar á samræmdum prófum aldrei verið hærra en nú. Skólarnir í bænum hafa sett sér það markmið að vera yfir eða í landsmeðaltali í öllum greinum. Því takmarki hefur nú verið náð í ensku, litlu munar að það hafi einnig náðst í stærðfræði en lengra er í land með að markmiðið náist í íslensku.
Þetta er birt með fyrirvara um að endanlegar tölur frá Námsmatsstofnun liggja ekki fyrir, segir í tilkynningu frá Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar.