Betra samstarf á milli grunn- og framhaldsskólastigs til hagsbóta fyrir nemendur á Reykjanesi

Grunnskólabörn.
Grunnskólabörn.

Frá og með áramótum mun Fjölbrautaskóli Suðurnesja bjóða grunnskólanemendum að taka áfanga í íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði. Nemendum hefur boðist þetta áður en breytingin er fólgin í því að Fjölbrautaskólinn býður nú upp á námskeiðin á þeim tíma dags þegar hefðbundnu grunnskólanámi er lokið.

Að mati Gylfa Jóns Gylfasonar, fræðslustjóra Reykjanesbæjar og Kristjáns Ásmundssonar, skólameistara FS, hefur þetta nýja fyrirkomulag margvíslega kosti í för með sér fyrir grunnskólanemendur.

Nemendur leggja sig frekar fram í námi á mið- og unglingastigi til þess að komast í þessa áfanga. Jafnframt kynnast nemendur því vinnuálagi sem tíðkast í framhaldsskólum og eru þ.a.l. betur undir það menntastig búnir.  Duglegir nemendur  gætu jafnvel flýtt töluvert fyrir sér í námi á framhaldsstigi og ævitekjur þeirra því mögulega aukist þar sem þeir komast fyrr út á vinnumarkaðinn.

Að sögn Gylfa Jóns og Kristjáns er afar ánægjulegt að samstarf milli skólastiganna sé gert markvissara með þessum hætti. Þetta sé augljóslega nemendum þeirra til hagsbóta og telja þeir að um 10% nemenda í hverjum árgangi ættu að geta nýtt sér þetta tilboð þegar fram í sækir.