Byggðasafn Reykjanesbæjar hlaut á dögunum öndvegisstyrk úr Safnasjóði. Styrkurinn er til þriggja ára og verður nýttur til að byggja upp nýja grunnsýningu safnsins í Duus safnahúsum. Stefnt er að því að sýningin verði opnuð árið 2025. Safnið fékk að auki tvo styrki til eins árs til að bæta aðbúnað og öryggi safngripa.
Það er mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr Safnasjóði að fenginni tillögu safnaráðs. Það er mikill heiður fyrir Byggðasafn Reykjanesbæjar að umsókn þess um öndvegisstyrk hafi hlotið brautargengi og staðfesting á öflugu starfi þess. Styrkirnir munu allir nýtast safninu vel og efla starfsemi þess enn frekar.
Öndvegisstyrkir 2023
Öndvegisstyrkir 2023-2025 til viðurkenndra safna á Íslandi voru fimm talsins og skiptast svo: fyrir árið 2023 kr. 16.500.000, fyrir árið 2024 kr. 21.500.000 og fyrir árið 2025 kr. 11.500.000. Heildarupphæðin fyrir allan styrktímann er 49.500.000 kr. Úthlutanir fyrir árin 2024 og 2025 eru veittar með fyrirvara um fjármögnun safnasjóðs.
Í aðalúthlutun safnasjóðs 2023 bárust sjóðnum alls 155 umsóknir frá 50 aðilum, frá 47 viðurkenndum söfnum, tveimur félagasamtökum og einum einstaklingi. 143 umsóknir bárust um styrki til eins árs að heildarupphæð 258.491.662 kr. og 12 Öndvegisumsóknir bárust að heildarupphæð 137.650.000 kr. fyrir allan styrktímann 2023 – 2025 og fyrir árið 2023 43.830.000 kr.