Þjóðhátíðardagskrá í Reykjanesbæ verður með hefðbundnu sniði á morgun 17. júní og fer hátíðardagskrá fram í skrúðgarði að venju.
Dagskrá hefst kl. 10:00 með knattspyrnuleik 7. flokks drengja Keflavík - Njarðvík en hátíðarguðþjónusta í Keflavíkurkirkju hefst kl. 12:30. Prestur er sr. Skúli S. Ólafsson. Að lokinni hátíðarguðþjónustu leggur skrúðganga af stað frá kirkjunni kl. 13:30 undir stjórn skáta og við undirleik lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Dagskrá í skrúðgarði hefst kl. 14:00 þegar þjóðfáninn er dreginn að húni og Karlakór Keflavíkur syngur þjóðsönginn. Árni Sigfússon bæjarstjóri setur hátíðarhöldin, Elín Óla Klemensdóttir flytur ávarp fjallkonu og Hjördís Kristinsdóttir flytur ræðu dagsins.
Að því loknu tekur við skemmtidagskrá í umsjón íþróttafélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur þar sem fram koma m.a. nemendur DansKompaní, iðkendur fimleikadeildar Keflavíkur, nemendur Myllubakkaskóla sem flytja lagaperlur Disney, Leikfélag Keflavíkur, Skoppa og Skrítla og Solla stirða og íþróttaálfurinn.
Boðið verður upp á kaffisölu í Hvammi við Suðurgötu hjá Kvenfélagi Keflavíkur og í Myllubakkaskóla hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur.
Kvöldskemmtun í skrúðgarði hefst kl. 20:30 en þar koma fram Léttsveit TR, Ástþór Óðinn, Gunnar Þórðarson, Ingó töframaður og hljómsveitin Íslenska Sveitin.
Söfn og sýningar verða opnar á 17. júní og í Víkingaheimum verður sérstök dagskrá í tilefni af 10 ára siglingarafmæli víkingaskipsins Íslendings til Ameríku. Þar koma fram Karlakór Keflavíkur, Þórunn Erna Clausen fer með atriði úr leikritinu Ferðasaga Guðríðar, kveikt verður á íslenskri frásögn Þorfinns Karlsefnis í Smithsonian sýningunni, Gunnar Marel segir frá siglingunni og sveitamarkaður verður í landnámsdýragarðinum.
SÝNINGAR Á 17. JÚNÍ
Duushús, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar: ókeypis aðgangur og allir velkomnir
13:00 - 17:00
Listasafn: Sýningin Efnaskipti, framlag Listasafns Reykjanesbæjar til Listahátíðar í Reykjavík.
Bátasafn: bátafloti Gríms Karlssonar - ný bátalíkön
Byggðasafn: sýningin Völlurinn
Bíósalurinn: Gömul verk í eigu Listasafnsins
Húsið Njarðvík við Innri - Njarðvíkurkirkju.
Stekkjarkot í Innri Njarðvík