DansKompaní og Steinn Erlingsson hljóta Súluna

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024, verður afhent um helgina. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti og verður þetta í tuttugasta og áttunda sinn sem Súlan verður afhent. Að þessu sinni verða veitt tvenn verðlaun og hljóta þau DansKompaní listdansskóli Suðurnesja og Steinn Erlingsson söngvari. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg og vísar í sjófuglinn Súluna í merki Reykjanesbæjar. Á merkinu rís upp hvít Súla sem tákn um lifandi samfélag.

Með viðurkenningunni vill bæjarstjórn Reykjanesbæjar þakka fyrir það mikilvæga framlag sem í því felst að eiga fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna og sem leggur af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti. Það er menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem tekur ákvörðun um hver skuli hljóta viðurkenninguna, að undangenginni auglýsingu þar sem óskað er eftir tillögum frá íbúum.

Steinn Erlingsson

Steinn Erlingsson baritónsöngvari hefur um árabil verið meðal fremstu söngvara á Suðurnesjum og áberandi í menningarlífi Suðurnesjamanna. Steinn er líklega þekktastur fyrir söngferil sinn með kór Keflavíkurkirkju þar sem hann hefur starfað um áratugaskeið sem kórmeðlimur og einsöngvari. Hann hefur auk þess tekið þátt í ýmsu öðru kórastarfi í gegnum tíðina, um langt skeið með Karlakór Keflavíkur, og oft sem einsöngvari á margvíslegum tónleikum og hvers kyns kirkjulegum samkomum og skemmtunum.

Steinn sem er 85 ára gamall hóf söngferil sinn á fertugsaldri er hann kom í land eftir 20 ára vélstjórn á sjó. Þá ákvað hann að láta drauminn rætast, fór í söngnám og lauk burtfararprófi árið 1985. Hann hélt svo utan til eins árs framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Haustið 1996 sendi Steinn frá sér einsöngsplötu undir titlinum Ó, bjarta nótt og hlaut hún mjög góðar viðtökur og dóma. Steinn hefur einnig sungið einsöng inn á nokkrar plötur með ýmsum kórum. Steinn er enn virkur kórfélagi í kór Keflavíkurkirkju og Eldey kór eldri borgara á Suðurnesjum.

Steini verða afhent verðlaunin á aðventukvöldi í Keflavíkurkirkju sunnudaginn 1. desember kl. 20 og eru velunnarar Steins hvattir til að mæta þangað.

DansKompaní

Listdansskólinn DansKompaní hóf starfsemi sína í Reykjanesbæ í janúar 2010 og sóttu þá um 50 nemendur nám við skólann. Síðan hefur skólinn heldur betur vaxið og dafnað lengst af undir stjórn Helgu Ástu Ólafsdóttur eiganda og skólastjóra og nú sækja vel á fjórða hundrað dansþyrstir nemendur skólann. Í DansKompaní er lagt mikið upp úr því að bjóða upp á gæða dansnám þar sem virðing, sjálfstyrking og samvinna er höfð að leiðarljósi til að stuðla að heilbrigðu og jákvæðu umhverfi fyrir skapandi einstaklinga.

DansKompaní hefur náð sögulegum árangri bæði innanlands og á alþjóðavettvangi og ber þar hæst árangur nemenda á heimsmeistaramótinu í dansi þar sem skólinn hefur unnið til fjölda verðlauna. Þá hafa nemendur DansKompaní fengið hlutverk í atvinnusýningum Þjóðleikhússins og í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum auk þess að hafa fengið inngöngu í dansnám í erlendum háskólum. Er árangurinn vitnisburður um óbilandi vinnusemi, ástríðu og hæfileika nemenda og kennara skólans ásamt öflugu og óeigingjörnu starfi foreldra.

DansKompaní hefur frá upphafi tekið mjög virkan þátt í menningarlífi Reykjanesbæjar og kemur iðulega fram á öllum helstu viðburðum bæjarins með glæsilegum dansatriðum sem hrífa alla viðstadda.

Menningarverðlaunin verða afhent DansKompaní á hátíðarsýningu skólans í Andrews theater á Ásbrú laugardaginn 30. nóvember kl. 16:30 að viðstöddum eldri nemendum skólans og aðstandendum þeirra.