Er nálgast jólin lifnar yfir öllu eins og segir í kvæðinu og vafalaust er stigvaxandi spennustig á mörgum heimilum. Þá er nú heldur betur gott að geta skellt sér í kuldagallann og skjótast í Aðventugarðinn til að fá útrás fyrir mesta jólaspenninginn. Það er dýrmætt að hafa þennan valkost í heimabyggð og geta með lítilli fyrirhöfn átt skemmtilegar samverustundir með fjölskyldunni.
Það er líka margt um að vera um helgina og margir aðventugestir líta við. Má þar nefna Snjóprinsessan og fjallamaðurinn, Leikfélag Keflavíkur, Ungleikhúsið, Brynju og Ómar, Kósýbandið, lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Tríólur og DansKompaní. Jólasveinarnir sem tínast nú til byggða hver á fætur öðrum verða í feiknastuði og eru til í alls kyns sprell og myndatökur. Aðventusvellið verður opið og eldstæðin verða á sínum stað þar sem dásamlegt er að gæða sér á rjúkandi ketilkakói og ristuðum sykurpúðum. Þá er aldrei að vita nema eitthvað freisti af varningi í sölukofum Aðventugarðsins sem gott gæti verið að læða í jólapakka.
Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í að skapa lifandi jólastemningu í Reykjanesbæ með því að líta við í Aðventugarðinum og taka inn anda jólanna.