Eiríkur Árni Sigtryggsson, listamaður Reykjanesbæjar 2018-2022
Listamaður Reykjanesbæjar er útnefndur einu sinni á hverju kjörtímabili og er það bæjarráð sem velur hann formlega eftir tillögu frá menningarráði sem unnið hefur út frá tilnefningum sem borist hafa frá bæjarbúum. Sá sem hlýtur nafnbótina Listamaður Reykjanesbæjar fær ákveðna fjárupphæð og grip til minningar um atburðinn. Þá er nafn hans einnig skráð á stall listaverks sem stendur í skrúðgarði bæjarins.
Eiríkur Árni Sigtryggsson er fæddur í Keflavík 14. september árið 1943. Hann hefur starfað sem tónskáld, tónlistarkennari og myndlistarmaður um langt árabil, bæði innanlands og erlendis en lengst af hefur Eiríkur þó starfað hér í Reykjanesbæ. Hann er afkastamikill listamaður á sviði tónsmíða og hafa mörg tónverka hans verið flutt hérlendis sem og erlendis, allt frá einleiks- og einsöngsverkum til hljómsveitaverka og kórverka. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt verk eftir Eirík, ýmsir kammerhópar, kórar, einleikarar og einsöngvarar hafa flutt verk eftir hann og mörg þeirra hafa verið sérpöntuð af listamönnunum. Eiríkur hefur átt verk á tónlistarhátíðinni "Myrkir músíkdagar" og nú sl. haust var verk hans "Lútherskantata" frumflutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, kirkjukórum Kjalarnesprófastsdæmis og einsöngvurum, en Kjalarnesprófastsdæmi pantaði verkið hjá honum í tilefni af 500 ára afmæli siðbótarinnar.
Eiríkur Árni starfaði við tónlistarkennslu í Reykjanesbæ frá árinu 1987, fyrst við Tónlistarskólann í Keflavík frá 1987 og svo við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá stofnun hans árið 1999 þar til hann hætti störfum vegna aldurs árið 2010. Vinir og velunnarar Eiríks ætla að standa að hátíðartónleikum í Bergi í Hljómahöll, laugardaginn 29. september n.k. í tilefni af 75 ára afmæli Eiríks Árna. Á efnisskrá verða eingöngu lög og tónverk eftir hann og flytjendur eru nokkrir af færustu tónlistarmönnum þjóðarinnar á sviði klassískrar tónlistar. En auk þeirra mun Kvennakór Suðurnesja flytja lög sem Eiríkur samdi sérstaklega fyrir kórinn fyrir nokkrum árum.
Eiríkur hefur einnig verið virkur í myndlistinni og haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér heima og erlendis. Eiríkur kenndi einnig lengi á myndlistarnámskeiðum fyrir börn og unglinga.
Eiríkur Árni Sigtryggsson hefur lagt mikið af mörkum á sviði lista og menningar og hefur átt sinn þátt í að litið er til Reykjanesbæjar sem menningarbæjar.