Árni Sigfússon og Aðalsteinn Ingólfsson með mynd Erró.
Sá skemmtilegi atburður átti sér stað við opnun sýningar Þorbjargar Höskuldsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar sl. föstudag að Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri með meiru kvaddi sér hljóðs og sagðist vera með kveðju frá Erró. Aðalsteinn hafði hitt Erró í París sl. sumar og þá hefði Listasafn Reykjanesbæjar borist í tal.
Erró þótti nokkuð til um að komið væri listasafn á Reykjanesið og vildi færa safninu gott málverk, en Listasafn Reykjanesbæjar er eitt yngsta listasafn landsins og hefur aðeins verið með starfsemi frá árinu 2003. Safnið sinnir þó öllum tilskyldum safnaskyldum og hefur m.a. staðið fyrir á sjötta tug sýninga.
Bæjarstjórinn, Árni Sigfússon tók á móti gjöfinni og bað Aðalstein fyrir kveðjur Reyknesinga til Errós. Árni sagði m.a. í þakkarræðu sinni að við gjöfina hefði safneign þessa eina listasafns Suðurnesjamanna aukist að miklum mun og þá ekki síst í listrænum skilningi.
Málverkið verður til að byrja með til sýnis í Duushúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar sem opin er alla virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00- 17.00.