Reykjanesbær hefur á grundvelli samkomulags við innanríkisráðherra átt í viðræðum við helstu kröfuhafa sveitarfélagsins með það að markmiði að endurskipuleggja fjárhag sveitarfélagsins. Samkomulagið við innanríkisráðherra er frá 15. desember 2015 og gildir til 31. desember 2016. Samkomulagið kemur í stað eldra samkomulags um sama efni frá 30. desember 2014 sem gilti til 31. desember 2015. Markmið samkomulagsins eru eftirfarandi:
a) Að stuðla að því að sjálfbærni náist í rekstri Reykjanesbæjar á árinu 2016 í samræmi við 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga.
b) Að stuðla að áframhaldandi markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Reykjanesbæjar svo að fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð.
Viðræður við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. (EFF) hafa staðið yfir frá því í mars 2015. EFF er stærsti einstaki kröfuhafi Reykjanesbæjar. Þær skuldbindingar sem Reykjanesbær hefur gagnvart EFF eru tryggðar með veði í þeim fasteignum sem Reykjanesbær leigir af EFF.
Nú liggur fyrir ákveðin niðurstaða þeirra viðræðna eins og greint var frá í tilkynningu Reykjanesbæjar til Kauphallar Íslands þann 5. febrúar sl. Í þeirri tilkynningu kom fram að viðræður Reykjanesbæjar við kröfuhafa EFF, þ.e. Glitni HoldCo ehf. f.h. Ríkisjóðs Íslands, Landsbankann hf. og Íslandsbanka hf., hafi skilað árangri og aðilar hafi sammælst um umfang skuldavanda sveitarfélagsins. Þá var tilkynnt að vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana bæjarins yrði haldið áfram og að rætt yrði við aðra kröfuhafa bæjarins á grundvelli þeirra forsendna sem sammælst var um við kröfuhafa EFF.
Eðlilegt er á þessum tímamótum að ræða nánar við kröfuhafa Reykjaneshafnar og kynna nánar skuldavandann, forsendur sem ræddar hafa verið við EFF og mögulegar leiðir að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins og stofnana þess. Kröfuhafar Reykjaneshafnar eru næst stærsti hópur kröfuhafa Reykjanesbæjar og stofnana hans.
Í tilkynningu Reykjaneshafnar dags. 1. febrúar 2016 kom fram að kröfuhafar Reykjaneshafnar sem ættu skuldbindingar sem væru fallnar á gjalddaga hefðu samþykkt að veita greiðslufrest og kyrrstöðutímabil til og með 15. febrúar 2016.
Fyrir liggur að ekki næst að kynna kröfuhöfum Reykjaneshafnar stöðu Reykjanesbæjar og stofnana hans og þá vinnu sem átt hefur sér stað í viðræðum við EFF innan þeirra tímamarka. Í ljósi þess mun Reykjaneshöfn óska eftir framlengdum greiðslufresti og kyrrstöðutímabili til 15. mars 2016. Til að liðka fyrir áframhaldandi viðræðum hafa kröfuhafar EFF samþykkt að veita sambærilegan greiðslufrest á leigugreiðslum meðan viðræður við kröfuhafa Reykjaneshafnar standa yfir. Fram til þessa hefur Reykjanesbær staðið í skilum við EFF en félagið hefur veitt verulegan greiðslufrest á mánaðarlegum leigugreiðslum.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.