Þjóðhátíðardagskrá Reykjanesbæjar verður með hefðbundnu sniði í ár og 17. júníhlaup Ungmennafélags Njarðvíkur verður á sínum stað. Það er fyrsti dagskrárliðurinn í ár, hefst kl. 11:00 við Stapa. Hátíðarguðsþjónusta verður í Ytri-Njarðvíkurkirkju kl 12:30.
Að venju munu skátar úr Heiðarbúum leiða skrúðgöngu í skrúðgarðinn og hefst gangan við Skátaheimilið kl. 13:30. Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leiðir gönguna. Hátíðardagskráin hefst kl. 14:00 með því að Brynja Árnadóttir fyrrverandi skólastjóri dregur þjóðfánann að húni. Að loknum söng Karlakórs Keflavíkur mun Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar setja hátíðardagskrá. Guðlaug Björt Júlíusdóttir nýstúdent mun flytja ávarp fjallkonunnar og ræðu dagsins heldur Sr. Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur.
Boðið verður upp á ýmiskonar skemmtidagskrá í skrúðgarðinum, bæði á sviði og víðsvegar um garðinn. Ýmis félagasamtök verða með kaffisölur.
Sérstök skemmtidagskrá fyrir ungt fólk verður framreidd í Ungmennagarðinum við 88Húsið frá kl. 19:30 til 22:00.
Benda má á að Víkingaheimar, Rokksafn Íslands og Duus safnahús verða opin 17. júní.