Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi fimmtudaginn 14. maí að útvíkka aðgerðir um frestun fasteignagjalda og fullnýta þá heimild sem sveitarfélögum var gefin í bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á alþingi 30. mars sl.
Fyrstu aðgerðir sem samþykktar voru í bæjarráði Reykjanesbæjar 26. mars sl fólu í sér að lögaðilar gætu óskað eftir frestun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í C-flokki vegna gjalddagana 1. apríl og 1. maí um tvo mánuði.
Bráðabirgðaákvæðið felur í sér að sveitarfélögum er heimilt að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í C-flokki frá 1. apríl til 1. desember með eindaga í síðasta lagi 15. janúar 2021. Verði gjaldandi sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021 fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020 getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem heimilað er þá að fresta gjalddögunum til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.
Gjaldendur sem nú þegar hafa óskað eftir fresti og óska eftir að bæta við einum gjalddaga og/eða lengja eindaga eru vinsamlega beðnir um að senda inn beiðnir á netfangið frestunfasteignagjalda@reykjanesbaer.is
Reykjanesbær beinir þeim tilmælum til þeirra lögaðila sem ekki hafa nýtt sér frestun fasteignagjalda en telja að úrræðið geti komið að gagni í því efnahagsumhverfi sem lögaðilar búa við að sækja um frestun.