Fréttir frá bæjarstjóra 27. maí 2015
Fjármálin
Fjármál Reykjanesbæjar eru í sífelldri skoðun. Unnið er markvisst skv. áætlun sem nefnist „Sóknin“ og sett var í gang sl. haust. Hún gengur í megin dráttum út á eftirtalda fjóra þætti: 1. Að auka framlegð bæjarsjóðs 2. Að halda fjárfestingum í nýjum innviðum undir 200 milljónum á ári 3. Að endurskipuleggja skuldir 4. Að gera B-hluta fyrirtæki Reykjanesbæjar sjálfstæð. Það er skemmst frá að segja að vinna skv. þessari áætlun gengur hægt en örugglega. Liður 3 snýst þessa dagana fyrst og fremst um að endursemja við kröfuhafa en þar er þrotabú Glitnis langstærsti kröfuhafi Reykjanesbæjar sem lánveitandi í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Á þessari stundu er enn mjög óljóst hvernig þær viðræður munu enda.
Starfsmannamál
Mikil endurskipulagning hefur átt sér stað í stjórnskipulagi Reykjanesbæjar. Sviðum hefur verið fækkað úr 7 í 5 og verða allir nýir sviðsstjórar komnir að fullu til starfa þ. 1. júní nk. Unnið hefur verið að innra skipulagi einstakra sviða, verkefni og störf tekið breytingum eða færð til og ráðið í lausar stöður. Talsvert af góðu og reynslumiklu fólki er að hætta og nýtt fólk að koma í staðinn. Um leið og það er söknuður af þeim sem eru að fara felast mikil tækifæri í þeim sem eru að koma.
Atvinnumál
Störfum fer fjölgandi og atvinnuleysi minnkar hratt. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fyrirtæki í kringum hana taka til sín margt fólk en einnig er mikil eftirspurn eftir iðnaðar- og verkamönnum vegna aukinna verkefna á ýmsum sviðum. Íbúum sem þurft hafa á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins að halda hefur fækkað verulega og er það vel. Nokkur stór verkefni eru í pípunum og má þar helst nefna kísilmálmverksmiðjur í Helguvík, sem nokkur umræða hefur orðið um, önnur verkefni í Helguvík, sem nær engin umræða hefur orðið um, fjölgun starfa í frumkvöðlafyrirtækjum að Ásbrú o.s.frv. Allt er þetta hið besta mál en fara þarf varlega og taka tillit til margra sjónarmiða þegar ný atvinnutækifæri eru annars vegar. Má þar nefna launastrúktúr fyrirtækja, skipulagsmál, umhverfismál o.s.frv.
Önnur mál
Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang. Mannlífið í byrjun sumars hefur verið með allra líflegasta móti; barnahátíð, tónleikar, hátíðisdagar o.fl. Ný Hæfingarstöð opnuð að Ásbrú, Haraldur Noregskonungur kom í stutta heimsókn ásamt forseta Íslands, nýr sóknarprestur kjörinn og Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði með bæjarstjórn, svo eitthvað sé nefnt. Framundan er vonandi skemmtilegt sumar fyrir sem allra flesta. Við sem störfum hjá Reykjanesbæ að bættum rekstri og þjónustu við íbúana munum halda áfram að gera okkar besta. Hvort það reynist nóg kemur í ljós síðar.