Fullkomin Þjónustumiðja aldraðra risin á tíu árum

Nesvellir.
Nesvellir.

Í hugmyndavinnu bæjarstjórnar sem fyrst var kynnt á íbúafundum í Reykjanesbæ fyrir 10 árum síðan var kynnt Framtíðarsýn um að byggja eitt þjónustusvæði í þágu aldraðra í miðjum bænum. Þjónustumiðstöð aldraðra skyldi hýsa margvíslega félagsaðstöðu, hádegisveitingar, miðstöð heimaþjónustu og dagvist ásamt fleiru. Þjónustumiðstöðin yrði samtengd öryggisíbúðum og íbúðum í hjúkrunarheimili en göngufæri væri í leiguíbúðir og þjónustuíbúðir sem öldruðum myndu bjóðast.  Horft var til verslana- og þjónustukjarna við Krossmóa í næsta nágrenni.

Með staðsetningu miðsvæðis og við Lífæð bæjarins var tryggt að allir aldraðir bæjarbúar, hvar sem þeir búa í bænum, ættu auðvelt aðgengi að almennri  þjónustu sem byðist á svæðinu og auðvelt væri fyrir ættingja og kunningja að líta við. 

Nú, tíu árum síðar, er risinn þessi þjónustukjarni, með aðstöðu til handavinnu, félagsstarfs, heimaþjónustu, með eldhúsi og veitingaaðstöðu, dagvist, sjúkraþjónustu, líkamsrækt og öðrum þjónustueiningum. Reistar hafa verið samtengdrar þjónustuíbúðir, öryggisíbúðir, auk almennra leiguíbúða í nágrenninu. Nýjasti áfanginn er glæsilegt 60 rúma hjúkrunarheimili sem Hrafnista rekur. 

Á síðustu 10 árum hafa með þessu orðið til 90 hjúkrunarými  í Reykjanesbæ, því auk þessa 60 rúma heimilis, fékkst fram breyting á  30 dvalarheimilisrýmum á Hlévangi í hjúkrunarrými.

"Stundum þykir okkur hægt miða. En þá er mikilvægt eiga sterka Framtíðarsýn og vinna markvisst að henni. Það hefur tekist mun víðar en í skólamálum. Þannig hefur okkur tekist  með góðu samstarfi við opinbera aðila og einkaaðila að byggja þessa fallegu og mikilvægu þjónustumiðju í þágu aldraðra á aðeins 10 árum. Það er ástæða til að óska öllum íbúum Suðurnesja hjartanlega til hamingju með það" segir Árni Sigfússon bæjarstjóri.