Gagnatorg Reykjanesbæjar opnað

Gagnatorg Reykjanesbæjar hefur verið opnað. Í Gangatorgi er að finna ýmsar tölulegar upplýsingar um Reykjanesbæ, svo sem íbúaþróun síðastliðið ár, íbúafjölda í hverfum, atvinnuleysistölur, yfirlit yfir fjölda gesta, rekstrartölur úr öllum málaflokkum og fjármálaupplýsingar.

Gagnatorgið er unnið af starfsfólki Hagdeildar Reykjanesbæjar þeim Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur og Hirti Harðarsyni. Þau segja markmiðið með Gagnatorginu að gera upplýsingar úr rekstri Reykjanesbæjar aðgengilegar fyrir íbúa og auka gagnsæi stjórnsýslunnar. „Við erum búin að vera að vinna að þessu undanfarna mánuði í samstarfi við DataMarket sem hannar útlitið, en upplýsingarnar birtast í gröfum, línu-, súlu- og skífuritum. Við munum uppfæra þessar upplýsingar mánaðarlega og vonum að íbúar Reykjanesbæjar hafi bæði gagn og gaman af Gagnatorginu,“ segir starfsfólk Hagdeildar. Hægt er að smella á tengilinn hægra megin hér á heimasíðu Reykjanesbæjar. Einnig má tengjast Gagnatorgi hér

Allar ábendingar varðandi Gagnatorgið eru vel þegnar og má hafa samband á netfangið hagdeild@reykjanesbaer.is.