Úr heimsókn í listasafn Reykjanesbæjar.
Nú þegar skólastarf er komið á fullt skrið í leik-, grunn-, og framhaldsskólum bæjarins lifnar líka yfir safnastarfi en fjölbreytt safna- og sýningarstarf er rekið á vegum Reykjanesbæjar; bókasafn, byggðasafn og listasafn auk fjölbreyttra sýninga m.a. í Duushúsum og Víkingaheimum standa skólahópum til boða til margs konar fræðslu þeim að kostnaðarlausu.
Margir koma aftur og aftur á Listasafnið
Í Duushúsum eru að jafnaði 6-8 sýningar í gangi hverju sinni. Margir skólahópar hafa vanið komur sínar á sýningar Listasafnsins þar sem 5-6 nýjar sýningar eru opnaðar árlega. Þessa stundina streyma nemendur á sýningu Kristínar Rúnarsdóttur, Leikfléttur, en Kristín er Njarðvíkingur og útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja áður en hún hóf myndlistarnám. Bekkurinn á myndunum með þessari frétt, 4. bekkur úr Heiðarskóla, kom reglulega í heimsókn allan síðasta vetur og hefur nú starfið í 4. bekk með heimsókn. Það hefur verið gaman að fylgjast með hversu fljót og fær börnin eru orðin í að meðtaka nýjar sýningar og tilbúin til að upplifa og njóta.
Nemendum boðið á nýja sýningu Byggðasafnsins í Bryggjuhúsi
Fyrir dyrum standa einnig mjög áhugaverðar nemendaheimsóknir á sýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar, Þyrping verður að þorpi, sem opnaði sl. vor í nýuppgerðu Bryggjuhúsi. Þar fá nemendur fræðslu um eigin átthaga og myndun og þróun byggðar á svæðinu.
Víkingaheimar standa nemendum alltaf opnir og hefur 5. bekk í Reykjanesbæ verið sérstaklega boðið þangað á vorin í tengslum við nám þeirra um landnámið og víkingaöldina.
Bókasafnið tekur vel á móti öllum
Þá er fræðsla er einnig ríkur þáttur í starfsemi Bókasafnsins. Upplýsingaþjónustan aðstoðar viðskiptavini við upplýsinga- og heimildarleit og býður jafnframt upp á kennslu í upplýsingalæsi. Öllum er þjónað hvort sem er vegna starfs, náms eða áhugamála. Vefur Bókasafnsins er mikil fróðleiksnáma um starfsemi safnsins, bækur og lestur fyrir alla aldurshópa, ásamt fróðlegum tenglum. Einn af föstu dagskrárliðum safnsins eru heimsóknir leik- og grunnskólabarna og ýmissa hópa sem óska eftir að fá að koma, kynnast safninu og þjónustu þess til yndis og fræðslu.
Ævintýrin bíða handan við hornið
Fjölmörg tækifæri eru því til aukinnar menntunar á ýmsum sviðum utan skólastofunnar, þar sem aðal áherslan er á upplifun. Með bættum og fríum strætósamgöngum hefur aðgengi skólanna að söfnunum batnað enn og því fátt því til fyrirstöðu að rúlla af stað með nemendur á vit ævintýranna.