Mikið er um fallega garða í Reykjanesbæ og garðeigendur þurfa að huga að mörgu þegar kemur að umhirðu þeirra. Í byggingarreglugerð nr.112/2012 er sú skylda lögð á garðeigendur að halda gróðri innan lóðarmarka og hvetur Reykjanesbær garðeigendur til að klippa tré sín og runna svo þau hindri ekki för vegfarenda, skyggi á umferðarskilti eða dragi úr götulýsingu.
En hvað þarf að passa?
- Gangandi og hjólandi vegfarendur eiga að hafa greiða leið um göngustíga.
- Gróður má ekki skyggja á umferðarmerki.
- Gróður má ekki byrgja götulýsingu.
- Gróður sem vex yfir göngustíg má ekki vera lægri en 2,8 metrar svo hjólreiðafólk og snjóruðningstæki komist leiðar sinnar.
- Gróður sem vex yfir akstursbraut má ekki vera lægri en 4,2 metrar svo sorphirðu- og snjóruðningstæki komist leiðar sinnar.
Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar eða koma ábendingu á framfæri geta haft samband við Umhverfismiðstöð í síma 420 3200 eða sent ábendingu í gegnum ábendingargátt.