Álver í Helguvík er langstærsta fjárfestingarverkefni á landinu fram til ársins 2017. Hagvöxtur á Íslandi er háður Helguvík.
Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í Morgunblaðinu sl. laugardag að ef Helguvíkurverkefnið (álver í Helguvík) fari í gang sjáist hilla undir að markmið um hagvöxt náist árið 2013 og nægi til komast aftur nær fullri atvinnu þegar nokkur ár hafa liðið. Sigurður Snævarr, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, vísar einnig til álvers í Helguvík sem meginstoðar í hagvexti næstu ára, sbr. umfjöllun Mbl.
Í umfjöllun Mbl kemur fram að álver í Helguvík er langstærsta fjárfestingarverkefni á landinu fram til ársins 2017 og nemur tæpum fjórðungi af fyrirhuguðum heildarfjárfestingum á þeim tíma.
Hannes bendir á að almennt hafi sú stefna verið tekin í kringum kjarasamningana og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í vor og svo stöðugleikasáttmálann 2009, að auka þyrfti hagvöxt með því að auka fjárfestingar einkum í útflutningsgreinunum og ná þannig að vinna atvinnuleysið niður.
Hann segir að það sem stefnt var að í vor, 350 milljarða fjárfestingum á næstu árum, sé ekki að gerast en það hefði getað knúið fram þann hagvöxt sem þyrfti til komast aftur nær fullri atvinnu þegar nokkur ár hafa liðið. Hannes segir að ef Helguvíkurverkefnið færi í gang sæist hilla undir það að markmið um fjárfestingu næðust á árinu 2013.