Ungir klarínettleikarar á tónfundi í Bergi Hljómahöll.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar heldur Dag tónlistarskólanna hátíðlegan með fjölbreyttri dagskrá frá kl.10.30 til 15.30. Dagskráin fer fram í Hljómahöllinni og hefst í Stapa kl.10.30 með tónleikum nemenda í Forskóla 2, sem eru börn í 2. bekk grunnskólanna. Undirleik á tónleikunum annast hljómsveit skipuð kennurum og nemendum skólans. Að tónleikunum loknum fá forskólanemendurnir hljóðfærakynningar og prufutíma á hljóðfæri á efri hæð Tónlistarskólans.
Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Í þeim fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og á árlegum hátíðisdegi þeirra, Degi tónlistarskólanna, efna skólarnir til ýmiskonar viðburða til að brjóta upp skólastarfið og vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við nærsamfélagið. Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem nú ber upp á þann 11. febrúar.
Að loknum tónleikum nemenda í Forskóla 2 kl. 11:00 hefjast aðrir dagskrárliðir í Hljómahöll þar sem til skiptis verða keppnir í tónfræðum milli tónfræðibekkja, sem fara fram í Stapa, og svo Ör-tónleikar sem haldnir verða í Bergi. Kaffihús Strengjadeildar verður starfrækt frá kl.10.45 – 15.30 en í boði verða veitingar á vægu verði. Ágóðinn rennur í ferðasjóð strengjadeildar.
Dagskráin í heild sinni með tímasetningum hvers viðburðar, er á vef skólans tonlistarskoli.reykjanesbaer.is og á Facebooksíðu hans. Sjá einnig á vef Reykjanesbæjar og Facebooksíðu bæjarins. Bæjarbúar og aðrir áhugasamir eru eindregið hvattir til að kynna sér dagskrá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á þessum hátíðisdegi íslenskra tónlistarskóla, kíkja við og njóta þess sem í boði er.