Í vetur var auglýst eftir tillögum að nafni á aðal hátíðarsvæði bæjarins þ.e. túnið á milli Hafnargötu og Ægisgötu. Svæðið er manngert, uppfylling síðari tíma, og því ekkert örnefni sem fylgir því.
Mikil og góð viðbrögð urðu við þessari auglýsingu og bárust tæplega 100 tillögur frá fjölda manns auk þess sem margir lögðu til sömu nöfnin. Á fundi menningarráðs á miðvikudag var nafnið Bakkalág valið sem nýtt nafn á svæðið.
Í nafngiftinni felst skemmtilegur orðaleikur. Nafnið lýsir annars vegar svæðinu nokkuð vel, en bakki er land meðfram sjávarbakka og lág er lægð eða dæld. Einnig felst í orðinu vísun til sögu þorpsins á 19. og 20. öld þegar fiskur var breiddur út, þurrkaður og saltaður hvar sem því var við komið og sendur á markaði við Miðjarðarhaf þar sem saltfiskurinn gengur undir nafninu Bacalo.
Næstu viðburðir á Bakkalág verða auðvitað á Ljósanótt og þá megum við eiga vona á fyrirsögnum eins og „Tónlistarveisla á Bakkalág.“ Það er því eins gott að fara að setja sig í stellingar því hlutirnir gerast á Bakkalág.