„Hvar er fé að finna og hvernig sækja frumkvöðlar fé“ er heiti á ráðstefnu atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar og Eignarhaldsfélags Suðurnesja.
Atvinnuþróunarfélagið Heklan og Eignarhaldsfélag Suðurnesja standa sameiginlega fyrir örráðstefnu um nýsköpun í atvinnulífinu á Park Inn by Radison fimmtudaginn 10. október kl. 17:00. Að sögn Bjarkar Guðjónsdóttur verkefnisstjóra hjá Heklunnu hafa félögin fengið til liðs við sig frábært fólk í nýsköpun, menningu og sprotafyrirtækjum. Frumkvöðla sem eru tilbúnir að deila reynslu sinni og þekkingu. Dagskrá er að finna neðst í frétt.
„Á örráðstefnunni verður skoðað hvernig vinnuumhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja á Suðurnesjum er. Er samfélagið á Suðurnesjum að styðja nægjanlega við starfsemi af þessum toga? Þurfum við að gera betur í þeim efnum? Við munum taka stöðuna út frá sjónarhóli frumkvöðuls. Hvar geta frumkvöðlar fengið styrki?,“ segir Björk.
Þá verður kynning á Uppbyggingasjóði Suðurnesja, en sjóðurinn styrkir menningarverkefni, atvinnu- og nýsköpunarverkefni. Opnað hefur verið fyrir styrkumsóknir fyrir árið 2020.
„Eignarhaldsfélag Suðurnesja styður við uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Stuðningur þess getur verið í formi láns eða hlutafjárkaupa, bæði til nýrra fyrirtækja og fyrirtækja sem nú þegar eru í rekstri á Suðurnesjum. Einnig kynnum við hvaða möguleikar eru fyrir ný fyrirtæki á styrkjum og lánum frá Byggðastofnun,“ segir Björk sem hvetur áhugasama til að fjölmenna á ráðstefnuna á Park Inn. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Örráðstefnan er öllum opin sem áhuga hafa án þátttökugjalds. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig svo hægt sé að sjá þátttöku . Með því að smella á þennan tengil opnast skráningarform á vef Heklunnar
Dagskrá
- Ragnar Sigurðsson Awarego
- Ásberg Jónsson Nordic Visitor
- Anna Margrét Ólafsdóttir Lubbi Peace (myndband)
- Fida Abu Libdeh GeoSilica
- Björk Guðjónsdóttir, Uppbyggingarsjóður Suðurnesja
- Friðjón Einarsson, Eignarhaldsfélag Suðurnesja
- Þorgeir Daniel Hjaltason, ráðgjafi og frumkvöðull