Skip sem liggur við bryggju.
Á Hafnarsambandsþingi sem haldið var á Ísafirði dagana 13. og 14. október sl. var m.a. rætt um loftlagsbreytingar og mengun tengda siglingum og höfnum. Í gögnum þingsins voru áhugaverðar greinar og kynningar og leyfum við okkur að birta eina þeirra hér:
Hvernig má draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
Ísland hefur skuldbundið sig samkvæmt COP 21 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til að ná þeim markmiðum þarf miklar fjárfestingar í innviðum samfélagsins, þannig að unnt sé að auka verulega notkun á rafmagni.
Hafnasjóðir landsins hafa í auknum mæli á seinustu áratugum boðið upp á landtengingar skipa en til að unnt verði að landtengja stærri skip en nú er mögulegt þarf að fjárfesta enn frekar í innviðum. Hafnarsjóðir eru almennt reiðubúnir að takast á við þetta verkefni, en ljóst er að það er ekki raunhæft nema með myndarlegri þátttöku og framlögum ríkisins og samstarfi við raforkufyrirtæki.
Það er þó hægt að gera meira og á síðustu misserum hefur verið gripið til aðgerða við takmörkun á útblæstri skipa og vaxandi umræða hefur verið um hvernig megi grípa til frekari aðgerða. Stærsta aðgerðin á síðustu árum felst í svonefndum Marpol samningi og fjallar viðauki VI um takmörkun á útblæstri þ.e. að takmörkun er sett við losun brennisteinsefna, köfnunarefnissambanda og rykagna. Einnig eru kvaðir um bann við losun ósoneyðandi efna (kælimiðla) út í andrúmsloftið ásamt sorpi og efnaúrgangi í sjó. Stjórn Hafnasambands Íslands hefur bent umhverfisráðherra á hvort ekki sér rétt að lögfesta viðauka VI við MARPOL samninginn og gera umhverfislögsögu Íslands að ECA svæði.
Viðauki VI við Marpol samninginn gildir innan svonefnda ECA svæðis (Emission Control Areas). Ef Ísland myndi lögfesta viðaukann og gera umhverfislögsögu Íslands að ECA svæði, þannig að skip sem sigla innan efnahagslögsögu Íslands verði að uppfylla ECA reglur um efnainnihald, þá væri það stórt skref í að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og súrnun sjávar.
Ferillinn er sá að Viðauki VI er fyrst innleiddur, en hann leyfir í dag 3,5% brennistein þ.e. svartolíu. Um leið og hann hefur verið innleiddur er hægt að taka næsta skref, sem er að fá umhverfislögsögu Íslands (200 mílur) samþykkta sem ECA svæði þar sem hæsta leyfilega magn brennisteins í eldsneyti 0,1% (það sama og er leyfilegt í höfnum). Þetta þýðir að einungis megi nota skipagasolíu (Marine Gas Oil) eða vistvænt eldsneyti á svæðinu. Hér er verið að vinna gegn súrnun sjávar og að efnaúrgangur frá óhreinum eldsneytisbruna fari í hafið. Lítil almenn umræða hefur átt sér stað um aðkomu Íslands að regluverki viðaukans sem myndi takmarka verulega eða banna notkun á svartolíu sem eldsneyti á skip, en áskilja að notað hreinna eldsneyti. Með lögfestingu viðaukans mætti innleiða hann með ákveðnum fresti til aðlögunar.
Ákvæði um brennistein í eldsneyti er að finna í reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti ásamt síðari breytingum. Hámarks brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti er núna 3,5% utan ECA svæða en lækkar niður í 0,5 árið 2020. Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, sem notað er í farþegaskipum sem sigla áætlunarferðir til eða frá höfn á Evrópska efnahagssvæðinu, skal til og með 1. janúar 2020 ekki vera meira en 1,5% (m/m).
Þá er í fyrrgreindri reglugerð ákvæði um að skip sem liggja við bryggju eigi að nota rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er. Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skulu skip sem liggja við bryggju í höfnum landsins ekki nota skipaeldsneyti með meira brennisteinsinnihald en 0,1% (m/m).