Frá sýningunni Þetta vilja börnin sjá, myndskreytingar úr barnabókum í Bíósal Duus Safnahúsa á safnahelgi 2015.
Þriðjudaginn 27. febrúar næstkomandi stendur menningarráð Reykjanesbæjar fyrir opnum íbúafundi í Duus Safnahúsum. Kominn er tími til að endurskoða menningarstefnu bæjarins. Aðal áherslan verður lögð á að skapa íbúum tækifæri til að koma sínum áherslum á framfæri. Hvernig menningarlíf viljum við hafa í Reykjanesbæ? Núgildandi stefna verður kynnt í fáum orðum á fundinum.
Á fundinum verður fólki skipt upp í umræðuhópa og gert er ráð fyrir að hver og einn geti tekið þátt í a.m.k. þremur hópum.
Allir íbúar bæjarfélagsins eru hvattir til að mæta, bæði ungir og aldnir, atvinnumenn og áhugafólk. Sérstaklega er óskað eftir þátttöku þeirra sem nú þegar eru í forsvari fyrir mismunandi menningar- og listhópa í bæjarfélaginu og/eða þeir sem hafa nýjar og ferskar hugmyndir að skemmtilegum nálgunum og lausnum í menningarmálum bæjarins.
Fundurinn verður haldinn í Bíósal Duus Safnahúsa, þriðjudaginn 27. febrúar kl. 17.00-19.00.
Umræðuhópar sem verða í gangi:
- Tónlist (allar tegundir)
- Sviðslistir (dans, leikhús, kvikmyndir)
- Saga, menning, hefðir
- Myndlist, handverk, hönnun
- Bókmenntir, upplýsingamennt
- Almenn menningarmál (hátíðarhald, viðburðir, fjölmenning)