Þetta eru bestu vinir í bænum.
Suðurnesin taka nú þátt í Listahátíðinni List án landamæra í fimmta sinn en hátíðin hefst á sumardaginn fyrsta, 25.apríl. List án landamæra er hátíð fjölbreytileikans þar sem horft er á tækifæri í stað takmarkana. Hún hefur það m.a. að markmiði að koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks.
Á hátíðunum fram til þessa hefur verið sett upp sviðsverk í Frumleikhúsinu, með tónlist, leik og söng. Árið í ár verður engin undantekning frá því enda um einstaklega skemmtilegan viðburð að ræða.
Markmið þessa árs er að fá fleiri að verkefninu úr ólíkum áttum, ekki síður fólk úr hópi ófatlaðra, það eru í raun engar takmarkanir. Ef þú hefur áhuga á leikhúsi með öllu því sem fylgir svo sem leiklist, sönglist, tónlist, kvikmyndagerð, leikmyndagerð, förðun eða búningum sláðu þá til og vertu með. Ef þú hefur áhuga á að starfa með fjölbreyttum hópi fólks að einhverju alveg nýju sem þú hefur ekki reynt áður, komdu þá með.
Með leikstjórn fara þau Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Henning Emil Magnússon sem stýrðu verkefninu með glæsibrag í fyrra. Æfingar hefjast í byrjun febrúar og skráning og nánari upplýsingar eru hjá Jennýju Magnúsdóttur á netfanginu jenny@mss.is eða í síma 848-3995.
Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni og hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Það er því ánægjulegt að sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum hafa hlotið styrk frá Menningarsjóði Suðurnesja til verkefnisins en auk þeirra stendur Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum að því.