Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ fékk sérstaka viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni . Það þótti skara fram úr þegar Rannís afhenti gæðaviðurkenningar menntaáætlunar Evrópusambandsins við hátíðlega athöfn í Ásmundasafni í gær. Heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík fékk einnig viðurkenningu.
Verkefnið sem Holt hefur unnið að heitir Lesum heiminn. Útgangspunktur verkefnisins var sagan Greppikló sem notuð var til að vinna ýmis viðfangsefni þar sem læsi og lýðræði voru tengd saman. Á þessari vefsíðu er hægt að kynna sér verkefnið nánar.
Leikskólarnir fengu að launum 190 þúsund krónur til tölvukaupa frá Tölvulistanum sem mun koma að góðum notum. Einnig fengu skólarnir listaverk eftir nema í Myndlistaskóla Reykjavíkur sem túlkuðu verkefnin á táknrænan hátt.
Verkefnin eiga það sammerkt að hafa sýnt fram á nýsköpun og nýbreytni í menntun, stuðlað að þátttöku fjölbreyttra hagsmunahópa í alþjóðasamstarfi og haft áhrif á skólastarf einstakra stofnana sem og víðtækari áhrif í skólasamfélaginu.
Alls tíu íslenskir skólar á leik-, grunn- og framhaldskólastigi fengu viðurkenningu Rannís.