Verðlaunamyndin Holtsbarna.
Börnin í leikskólanum Holti sendu fallega mynd í myndasamkeppni hjá Embætti landlæknis. Keppnin tengdist vatni og var undir kjörorðunum „Vatn er besti svaladrykkurinn“.
Í morgun var svo tilkynnt að leikskólabörnin hafi unnið til fyrstu verðlauna. Að launum fá þau myndarlegan vatnsbrunn eða font sem settur verður upp í nýju listasamiðjuna í leikskólanum.
Það var Jóhanna Laufey Ólafsdóttir hjá Embætti landlæknis sem kom og færði börnunum verðlaunin og gaf þeim einnig endurskinsmerki sem jafnframt minnir börnin á að hugsa vel um tennur. Kristín Helgadóttir, leikskólastjóri, tók við verðlaununum. Börnin þökkuðu svo fyrir sig með því að syngja tvö lög, annað íslenskt og hitt á ensku úr myndinni Frozen sem var vel við hæfi þar sem myndin var unnin í rannsóknarvinnu með klaka.