Líkami, efni og rými.
Ljósmynd: Vigfús Birgisson
Sýningin Líkami, efni og rými verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar föstudaginn 16. nóvember n.k. kl. 18.00. Á sýningunni eru leiddar saman myndlistakonurnar Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir.
Listakonurnar þrjár hafa allar unnið lengi að list sinni og sýnt víða, bæði innan lands og utan. Það sem helst tengir þær saman er afar sterk tilfinning fyrir efniskennd og hvernig verk þeirra hverfast um lögmál myndlistarinnar; forma, lita, rýmis og tíma. Pappír er ríkjandi í verkum þeirra allra, en nálgunin við efnið er afar ólík hjá hverri og einni.
Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir og hún og listakonurnar verða með leiðsögn sunnudaginn 25.nóvember kl. 15.00. Sýningin stendur til 13. janúar 2019 og safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.
Við sama tilefni verða tvær aðrar sýningar opnaðar; 40 ára afmælissýning Byggðasafns Reykjanesbæjar, „Við munum tímana tvenna,“ og sýning á ljósmyndum eftir Jón Rúnar Hilmarsson, „Ljós og náttúra Reykjanesskaga“ verður opnuð í Bíósal. Þá verða menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan, veitt ásamt því að styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur verða færðar þakkir fyrir sitt framlag.