Sigurður Smári Hansson leikur Baldur. Hér er hann með plöntuna Auði II meðan hún er í viðráðanlegri stærð.
Leikfélag Keflavíkur (LK) ætlar að fagna 20 ára afmæli Frumleikhússins með leiksýningunni Litlu hryllingsbúðinni. Frumsýnt verður föstudaginn 24. febrúar. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fékk félaginu afnot af húsnæðinu í ársbyrjun 1997, ásamt tíu milljónum króna til framkvæmda.
Frumleikhúsið er staðsett við Vesturbraut 17. Þar var lengst af starfræktur skemmtistaður, s.s. KK, Þotan, Glaumberg og K17. Það beið því félagsmanna í Leikfélagi Keflavíkur ærin vinna við að breyta þessum fyrrum skemmti- og veitingastað í leikhús. Í 20 ára sögu leikhússins hefur hver stórsýningin á fætur annarri verið sett upp, nú Litla hryllingsbúðin í leikstjórn Þorsteins Bachmann.
„Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir Auði ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin stöðugt meira í blómabúðinni og Baldur verður sífellt vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar,“ segir á Wikipedia. Höfundar verksins eru Alan Menken (tónlist) og Howard Ashman (texti). Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt og staðfærð hið talaða mál en Megas söngtextana.
Við uppsetningu sýningarinnar hjá LK er snúningssvið notað í fyrsta sinn. Um smíði þess sá Davíð Óskarsson formaður félagsins. Hönnun plöntunnar Auðar II í fjórum stærðum var í höndum Jóns Bjarna Ísakssonar. Tónlistarstjóri er Arnór B. Vilbergsson handhafi menningarverðlauna Reykjanesbæjar 2016.