Horft inn í listasal Duushúsa.
Laugardaginn 26 janúar verður sýningin Lög unga fólksins opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum. Á henni er að finna ný verk, málverk, skúlptúra og innsetningar, eftir sex unga myndlistarmenn, Davíð Örn Halldórsson, Guðmund Thoroddsen, Jóhönnu Kristbjörgu Sigurðardóttur, Mörtu Maríu Jónsdóttur, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Ragnar Jónasson. Öll eru þau fædd á árunum 1974 til 1982 og eiga að baki bæði einkasýningar og samsýningar heima og erlendis. Tveir þeirra, Jóhanna Kristbjörg og Ragnar, eru búsettir erlendis.
Heiti sýningarinnar er tvírætt, vísar bæði til áhuga listamannanna á dægurtónlist og dægurmenningu almennt og hins „lagskipta málverks“, bæði í tæknilegu og menningarlegu tilliti, enda eru verk þeirra samsett úr mörgum lögum nútíma sjónmenningar. Þetta eru verk máluð á striga, tréplötur, viðarbúta og aðskotahluti, höggin í rótarhnyðjur, hlaðin úr keramíkvösum, að ógleymdum verkum eftir Davíð Örn og Ingunni Fjólu, sem gerð eru sérstaklega fyrir sýningarrýmið.
Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Sigrún Sandra Ólafsdóttir, sem til skamms tíma rak Gallerí Ágúst. Í formála segir Aðalsteinn m.a.:“Með örfáum undantekningum eru listamennirnir ekki uppteknir af því að fá beina útrás fyrir sterkar tilfinningar, villt ímyndunarafl og húmor, heldur leita þeir leiða til að koma á framfæri því sem þeim liggur á hjarta með hlutlægari hætti en áður, ekki síst með því að sölsa undir sig ýmis viðmið eldri málaralistar“.
Sýningin Lög unga fólksins verður opnuð þann 26. janúar kl. 15.00 og stendur til 10. mars. Hún er opin alla virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Ókeypis aðgangur.