Hópurinn sem las á lokahátíðinni.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í DUUS húsum 24. mars. Þar kepptu fulltrúar grunnskólanna í Reykjanesbæ og Sandgerði alls 13 nemendur. Keppendur lásu texta úr bók Guðrúnar Helgadóttur, Öðruvísi fjölskylda, ljóð eftir Anton Helga Jónsson og ljóð að eigin vali. Lesturinn var glæsilegur að vanda og keppendur vel undirbúnir. Tveir verðlaunahafar frá því í fyrra, Jóhanna Lilja Pálsdóttir og Kristján Jón Bogason, kynntu rithöfund og skáld keppninnar í ár. Skúli Guðmundsson, keppandi úr Grunnskóla Sandgerðis, flutti frumsamið ljóð eftir hann og móður hans, ort í tilefni af keppninni í ár.
Birgitta Rós Ásgrímsdóttir úr Holtaskóla sigraði, Olga Nanna Corvetto, Akurskóla varð í 2. sæti og Erna Rós Agnarsdóttir, Holtaskóla varð í 3. sæti.
Birgitta Rós Ásgrímsdóttir, Holtaskóla, sem hampaði 1. sætinu.
Olga Nanna Corvetto, Akurskóla, varð í 2 sæti.
Erna Rós Agnarsdóttir, Holtaskóla, varð í 3. sæti.
Hátíðarbragur var á lokahátíðinni. Gylfi Jón Gylfason flutti ávarp og afhenti nemendum bókagjöf. Alexander Frydryk Grybos, nemandi í 7. bekk Holtaskóla flutti ljóð á pólsku og nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist. Að lokum flutti ávarp Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar og fulltrúi Radda, og óskaði viðstöddum til hamingju með velheppnaða listahátíð unga fólksins.
Litla upplestrarkeppnin er nú að festa sig í sessi í 4. bekk grunnskólanna á svæðinu og eru lokahátíðir hennar haldnar í hverjum skóla fyrir sig þar sem nemendur lesa sögur og ljóð, einir sér eða í talkór.
Styrktaraðilar keppninnar í ár eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Félag íslenskra bókaútgefenda, Íslandsbanki og Mjólkursamsalan.