Ný menntastefna Reykjanesbæjar sem ber heitið Með opnum hug og gleði í hjarta var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær.
Undirbúningur að menntastefnu Reykjanesbæjar hefur staðið yfir í um það bil eitt ár. Fjölskipaður stýrihópur hagaðila kom að mótun stefnunnar ásamt því að leitað var til barna, ungmenna og fullorðinna með það fyrir augum að draga fram helstu áherslur og forgangsatriði. Beitt var ýmsum aðferðum í því efni og má meðal annars nefna kannanir og rýnisamtöl við minni og stærri hópa fólks á ólíkum aldri.
Stefnudrög voru lögð fyrir fræðsluráð 4. júní síðastliðinn þar sem samþykkt var að vísa þeim til nefnda og ráða bæjarins. Eftir að öll ráð og nefndir höfðu tekið stefnudrögin til umfjöllunar og veitt þeim umsögn sína samþykkti fræðsluráð að vísa drögum að menntastefnu til umræðu í bæjarstjórn í samræmi við samþykktir þar um. Það var síðan á bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 21. september 2021 sem ný menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030 var samþykkt samhljóða.
Menntastefnu Reykjanesbæjar, sem hefur fengið heitið Með opnum hug og gleði í hjarta, er ætlað að veita leiðsögn og innblástur öllum þeim sem koma að starfi með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu, að vísa veginn og leiðbeina um hvernig nám, leikur, listir og íþróttir fléttast allt saman og stuðlar að því að börn og ungmenni öðlist góða alhliða menntun og séu virkir þátttakendur í fjölbreyttu samfélagi.
Menntastefnan tekur mið af grunnstefnu sveitarfélagsins sem ber heitið Í krafti fjölbreytileikans og stefnuáherslu hennar Börnin mikilvægust ásamt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Menntastefna fyrir Ísland til 2030 er einnig höfð til hliðsjónar sem og gildandi aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Menntastefnan, sem nær til allra barna og ungmenna í Reykjanesbæ inniheldur eitt meginmarkmið, þrjú leiðarljós og fimm stefnuáherslur sem Reykjanesbær vill að endurspeglist í öllu skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi.
Formleg innleiðing menntastefnunnar sem gildir til 2030 hefst nú í haust og er lögð mikil áhersla á að kynna áherslur hennar vel innan menntasamfélagsins. Gert er ráð fyrir því að hver stofnun innan fræðslusviðs geri sína eigin aðgerðaáætlun til þriggja ára í senn, sem byggir á stefnunni, en tekur um leið mið af aðstæðum á hverjum stað. Fræðsluskrifstofan mun leiða þá vinnu og styðja vel við bakið á sínum stofnunum í gegnum innleiðingarferlið.
Menntastefna - skjalMenntastefna - vídeó