"Við förum af stað um leið og orkumyndin skýrist og við munum ekki eiga í vandræðum með að fjármagna þetta," sagði Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, um framkvæmdir félagsins í Helguvík. Hann var spurður um fjármögnun framkvæmdarinnar vegna frásagnar af ræðu forstjóra Landsvirkjunar á formannafundi ASÍ í gær. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifaði á síðu VLFA að ræða forstjóra Landsvirkjunar hefði vakið mesta athygli sína.
"Það er mat formanns VLFA eftir að hafa hlustað á forstjóra Landsvirkjunar að hverfandi líkur séu á að framkvæmdir vegna álversins í Helguvík verði að veruleika. Það kom fram í máli Harðar að Norðurál ætti eftir að fjármagna verkefnið að andvirði 250 milljarða og taldi hann að það yrði gríðarlega erfitt fyrir Norðurál að fjármagna verkefnið sökum ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum," skrifar Vilhjálmur.
Ragnar kvaðst ekki hafa verið á fundinum og því ekki geta tjáð sig um ræðu Harðar. Hann sagði félagið ekki telja sig eiga í neinum vandræðum með að fjármagna sinn hlut varðandi uppbygginguna í Helguvík. Álverið á Grundartanga og verkefnið í Helguvík séu skuldlaus við lánastofnanir auk þess sem samstæðan eigi töluverða fjármuni í sjóðum. "Við höfum búið í haginn fyrir þetta verkefni í langan tíma og klárum okkur af því sem að okkur snýr, það verður ekki vandamál," sagði Ragnar.
Ragnar sagði rétt hjá Herði að það tæki tíma að klára allan undirbúning fyrir alla áfangana. »Það verður að hafa í huga að framkvæmdin er áfangaskipt og það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja vinnu við 1. áfangann án tafar. Hluti af orkunni er þegar tilbúin. Orkuveita Reykjavíkur er búin að klára byggingu á Hellisheiðarvirkjun 5 og 6, en orkan var ætluð í fyrsta áfangann í Helguvík. Þegar búið er að klára þessa orkusamninga er hægt að fara af stað með litlum fyrirvara því að það er allt til reiðu frá okkar hendi.«
Ragnar sagði að HS-orka væri búin að fá öll leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun og Landsvirkjun hefði sömuleiðis öll leyfi til að virkja í neðrihluta Þjórsár ef áhugi væri á að fara í það verkefni. Landsvirkjun ætti fleiri kosti ef fyrirtækið vildu leggja verkefninu lið. "Það er gríðarlega orka til í orkukerfinu í dag sem að er ekki nægilega góð nýting á. Það er ekki einu sinni víst að það þurfi að virkja meira til að knýja fyrsta áfangann í Helguvík."
Reisa á álverið í Helguvík í fjórum áföngum, hvern með 90.000 tonna framleiðslugetu. Áætlað er að það kosti nálægt 75 milljörðum króna að ljúka fyrsta áfanga. Þar af mun vera búið að leggja 15-20 milljarða í verkefnið. Samkvæmt reikningum Century Aluminium-samstæðunnar á hún nærri 25 milljarða króna í sjóði.