Mikill meirihluti íbúa á Suðurnesjum er hlynntur iðnaðaruppbyggingu í Helguvík, samkvæmt frétt sem birt var í Morgunblaðinu í morgun.
Áhugahópur um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi fékk Markaðs og miðlarannsóknir ehf. (MMR) til að gera viðhorfskönnun. Niðurstaða könnunarinnar leiddi í ljós að 72% þeirra sem svöruðu sögðust frekar eða mjög hlynntir iðnaðaruppbyggingu en 28% sögðust mjög eða frekar andvígir. Þá sögðu 72,3% svarenda vera hlynntir því að annars konar orkufrekur iðnaður yrði settur á fót í Helguvík ef í ljós kæmi að þar myndi ekki rísa álver. Mjög eða frekar andvígir voru 27,7% svarenda.
Könnunin var gerð í síma og á netinu fyrstu dagana í desember en þá fór íbúakosning um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík fram í Reykjanesbæ. Samtals 1201 einstaklingur var í úrtakinu og svöruðu rúm 45%.