Nemendur úr 6. bekk Akurskóla við hraðamælingarnar í morgun. Ljósmynd: Akurskóli
Nemendur í 6. bekk Akurskóla stóðu vaktina frá kl. 7:50 til 13:45 fyrir utan skólann og mældu hraðann á bílum sem óku fram hjá. Alls 891 bíll var mældur á fyrrgreindum tíma og óku flestur undir löglegum hraða. Tilgangurinn var að vekja athygli ökumanna á 30 km hámarkshraða sem er við skólann.
Bílar sem óku Tjarnabrautina fram hjá Akurskóla voru mældir eftir bestu getu. Nemendur héldu uppi spjöldum til að hrósa þeim sem óku á réttum hraða eða hvetja þá sem keyrðu of hratt til að hægja á sér. Lögreglan kíkti við í heimsókn nokkrum sinnum í dag til að sjá hvernig gengi. Aðstandendur verkefnisins voru ánægðir með áhuga lögreglunnar á því.
Nemendurnir voru að spreyta sig á því að nota hraðamælirinn í fyrsta sinn. Með það í huga og fyrirvara um að hraðamælirinn hefur aðeins staðist óformlegar prófanir eru niðurstöðurnar eftirfarandi. Alls 891 bíll var mældur:
- 462 bílar óku undir hámarkshraða eða undir 28 km/klst
- 218 bílar óku á eða um hámarkshraða 28 – 34 km/klst
- 106 bílar óku á 35 – 40 km/klst hraða sem er yfir hámarkshraða
- 105 bílar á yfir 40 km/klst hraða og sá sem hraðast ók, var mældur á 58 km/klst hraða
Því er ljóst að tæplega 700 ökumenn virða hámarkshraða eða 76%. Tæp 12% eru marktækt yfir hámarkshraða og tæp 12% eru að keyra allt of hratt.
Nemendur og starfsfólk Akurskóla vill þakka þeim ökumönnum sem sýndu margir mikla tillitssemi, óku vel undir hámarkshraða og hvöttu krakkana áfram með brosi og þumli.
Frétt af vef Akurskóla, akurskoli.is