Frá afhendingu afraksturs verkefnisins í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þann 21. júní sl. Frá vinstri: Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir deildarstjóri hljómborðsdeildar, Sigríður Daníelsdóttir forstöðumaður fjölskyldumála hjá Velferðarsviði Reykjanesbæjar, Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir píanónemandi, Jón Garðar Arnarsson píanónemandi, Karen Janine Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri og Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri. VF-mynd: Hilmar Bragi
Píanó-, harmoniku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, ásamt kennurum sínum, efndu á vordögum til tónlistarverkefnisins „Frá barni til barns.“ Tónlistarverkefnið var söfnun til styrktar langveikum/fötluðum börnum í Reykjanesbæ. Verkefnið hófst 14. apríl sl. og lauk nýverið með afhendingu 800 þúsund króna peningaupphæðar til Velferðarsviðs Reykjanesbæjar. Velferðarsvið mun varðveita og útdeila fjármunum í þágu langveikra/fatlaðra barna í Reykjanesbæ.
Upphafsdaginn var efnt til sérstakrar dagskrár í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem haldin var tónleikaröð í tónleikasalnum Bergi. Nemendurnir höfðu þá selt miða á tónleikaröðina og safnað munum á listmarkað. Listamenn úr röðum nemenda og/eða aðstandenda á sviði myndlistar, ritlistar, tónlistar, ljósmyndunar og ýmis konar handverks gáfu verk sín sem seld voru á tónleikadaginn. Að auki var starfrækt kaffihús við listmarkaðinn og nýttu nokkrir píanó- og harmonikunemendur tækifærið og léku fyrir gesti kaffihússins.
Að sögn Haraldar Árna Haraldssonar skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar heppnaðist verkefnið „Frá barni til barns“ í alla staði mjög vel. „Það var mikill fjöldi fólks sem lagði leið sína í Tónlistarskólann þann 14. apríl til að njóta tónlistarflutnings nemenda og góðra veitinga. Einnig seldist all nokkuð af listaverkum. Starfsmannafélag Brunavarna Suðurnesja gaf þennan dag 100.000 kr. til styrktar málefninu. Við þökkum innilega þann stórhug.“