Á dögunum opnaði ný deild leikskólans Tjarnarsels, Tjarnarlundur, í sögufræga húsinu að Skólavegi 1. Um er að ræða aldursblandaða deild fyrir 25 börn, sem starfar sem útibú frá Tjarnarseli. Þetta markar spennandi nýjan kafla í sögu hússins, sem byggt var árið 1911 sem barnaskóli og er elsta steinhús Keflavíkur. Nú þjónar það yngsta skólastiginu í bænum og hefur fengið glænýtt hlutverk með yfirgripsmiklum endurbótum.
Saga hússins er merkileg, en það var reist árin 1910-1911 og markaði tímamót sem fyrsta steinsteypta húsið í Keflavík. Árið 1908 hófst vinnan við að reisa nýtt skólahús en í enda árs voru framkvæmdirnar stöðvaðar vegna kreppu og hófust ekki á ný fyrr en árið 1910. Kostnaðaráætlun fyrir steinsteypt skólahús hljóðaði upp á 9.350 kr. en timburhús kostaði 9.200 kr. Kosið var um tillögurnar, og var samþykkt með 60 atkvæðum gegn einu að reisa fyrsta steinsteypta húsið í bænum og er þetta hús því talið marka upphaf steinsteypualdarinnar í bænum. Húsið hefur alla tíð þjónað sem miðpunktur skólastarfs, þótt það hafi einnig verið tillaga árið 1989 að breyta því í Ráðhús Keflavíkur.
Endurbæturnar á húsinu voru unnar af mikilli vandvirkni, og gamli barnaskólinn fær nú að njóta sín sem nútímalegt skólarými með hlýlegum sögulegum blæ. Rögnvaldur Ólafsson, húsameistari sem hannaði upphaflega bygginguna, hefði án efa verið stoltur af nýju lífi sem húsinu hefur verið gefið. Arkitekt breytinganna, Jón Stefán Einarsson, lagði mikla alúð við að viðhalda sögulegum einkennum hússins og skapa um leið heillandi og praktískt umhverfi fyrir börn og starfsfólk.
„Það er óhætt að segja að endurgerð hússins hafi tekist með afbrigðum vel. Gamli barnaskólinn er elsta steinhús bæjarins, frá árinu 1911 og erum við himinlifandi yfir því að þetta fallega hús sé farið að þjóna skólastarfi á nýjan leik,“ segir Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs.
Betra starfsumhverfi fyrir leikskólann
Opnun Tjarnarlundar hefur mjög jákvæð áhrif á starfsemi Tjarnarsels. „Kennarar fá nú undirbúningsaðstöðu og fundarherbergi á efri hæð hússins, á meðan sérkennslan á Tjarnargötunni hefur flutt í nýtt rými sem uppfyllir nútímakröfur. Þetta bætir bæði vinnuumhverfi starfsfólks og aðstöðu fyrir börn, sem er kærkomin viðbót við þennan elsta leikskóla bæjarins, sem er nú þegar vel á sextugsaldri,“ segja Árdís Hrönn Jónsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarsels, og Ingibjörg Sif Stefánsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri.
Gleðidagar þegar deildin flutti
Þótt deildin hafi formlega opnað þann 28. nóvember, hófst starfsemi hennar í ágúst í bráðabirgðaaðstöðu í Keili á Ásbrú. Það voru því miklir gleðidagar þegar börn og kennarar Tjarnarlundar fluttu með allt sitt í þetta sögulega hús á Skólaveginum. Endurbæturnar eru gleðiefni fyrir alla bæjarbúa og styrkja menntunar- og menningarlíf Reykjanesbæjar enn frekar.
Við óskum börnum og kennurum til hamingju með þessa frábæru viðbót við leikskólann Tjarnarsel!