Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur tekið þá ákvörðun að boðið verði upp á ókeypis aðgang í Rokksafn Íslands og Duus Safnahús, menningar og listamiðstöð Reykjanesbæjar frá 1.júní – 31.ágúst. Er þessi ákvörðun tekin sem liður í að bjóða Íslendinga velkomna til Reykjanesbæjar á ferðum sínum um landið í sumar. Reykjanesbær er frábær áfangastaður og tilvalinn til bæði dagsferða og lengri ferða. Uppskrift að góðum degi væri t.d. að fara frítt á söfnin, heimsækja Skessuna í hellinum, fara frisbiegolf, smella sér í Vatnaveröld, fá sér ís eða máltíð á veitingastað, kíkja í búðir og þannig mætti áfram telja. Stundum eru ævintýrin nær en manni grunar.