Reykjanesbær vill vekja athygli á Virkniþingi Velferðarnets Suðurnesja, sem verður haldið næstkomandi fimmtudag, 26. september, í Blue Höllinni að Sunnubraut 34 frá kl. 13:30 til 17:00.
Tilgangur Virkniþingsins er að kynna virkniúrræði og starfsemi fyrir fullorðið fólk á Suðurnesjum og auka sýnileika þeirra. Markmiðið er að efla félagslega virkni íbúa, auka lífsgæði og efla félagsstarf á Suðurnesjum. Þótt þingið sé fyrst og fremst ætlað fagfólki sem starfar með fólki utan vinnumarkaðar, er það opið öllum íbúum.
Frú Halla Tómasdóttir, forseti lýðveldisins, mun opna Virkniþingið með formlegri athöfn. Í kjölfarið mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ávarpa gesti, en hann hefur verið ötull stuðningsmaður Velferðarnets Suðurnesja á undanförnum árum.
Eftir opnunina verður boðið upp á fjölbreytt úrval kynninga frá yfir 20 aðilum, þar sem gestir geta kynnt sér virkniúrræði og starfsemi við hæfi. Dagskráin er fjölbreytt, og allir ættu að geta fundið eitthvað áhugavert.
Formleg dagskrá hefst á eftirfarandi dagskrárliðum:
- Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
- Frú Halla Tómasdóttir, forseti lýðveldisins, opnar Virkniþing Suðurnesja
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flytur ávarp
- Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar
- Tónlistaratriði frá Davíð Má Guðmundssyni, íbúa í Reykjanesbæ
- Tónlistaratriði frá Regnbogaröddum
Virkniþingsstjóri verður Lárus Blöndal, einnig þekktur sem Lalli töframaður, og mun hann halda léttu og skemmtilegu andrúmslofti yfir daginn.
Við hvetjum alla íbúa Suðurnesja til að kíkja við!