Evrópska vinnuverndarstofnunin stendur árlega fyrir vinnuverndarviku þar sem Evrópuþjóðir sameinast í átaki til að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki. Markmiðið er að bæta öryggi á vinnustöðum og gera þá heilsusamlegri. Öryggis- og vinnuverndarvika var haldin dagana 17.-21. október 2022. Stofnanir Reykjanesbæjar voru hvattar til að taka þátt í henni með ýmsum verkefnum og fræðslu sem þau gátu nýtt sér, t.d. fara yfir nýliðafræðslu, kynna öryggisnefndir og vinnuverndarstarf, halda rýmingaræfingar, yfirfara neyðarútganga og neyðarbúnað, skoða fræðsluefni um líkamsbeitingu og sækja skyndihjálparnámskeið.
Hjá Reykjanesbæ var Workplace nýtt í tilefni af öryggis- og vinnuverndarvikunni og voru upplýsingum deilt með starfsmönnum til að gera vinnustað þeirra enn betri og öruggari. Guðmundur Kjerúlf, vinnuverndarfulltrúi Reykjanesbæjar, flutti hnitmiðuð erindi um vinnuvernd, vinnuslys, hávaða og heyrnarvernd ásamt kynningu á stefnu og viðbragðsáætlun vegna EKKO. Hrefna Gunnarsdóttir flutti fyrirlestur um upplýsingaöryggi og Dr. Valdís Jónsdóttir var með frábæran fyrirlestur um mikilvæg atriði í raddheilsu sem átti sérstaklega við starfsfólk í skólakerfinu.
Á hverjum morgni hvatti Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur, betur þekkt sem Ragga nagli, starfsmenn með pistlum. Hún hvatti starfsmenn varðandi hugarfar og heilbrigða lifnaðarhætti, hún deildi pistlum um: Svefninn er undirstaða heilsunnar, Súkkulaði í stresskasti og Æfingar í streituástandi.
Vinnuverndarteymi Reykjanesbæjar vonar að tekist hafi að ýta við starfsfólki Reykjanesbæjar um vinnuvernd og öryggismál en markmið Reykjanesbæjar er að þessi vika verði árleg og stækki eftir því sem árin líða.